Eigendur Hótel Selfoss hafa átt í viðræðum við Íslandsbanka um fjárhagslega endurskipulagningu hótelsins og standa vonir til að þeim ljúki fljótlega. Hjá bankanum liggur rekstraráætlun eigenda hótelsins og sjóðstreymisgreining.

„Málið er inni hjá bankanum eins og sakir standa. En niðurstaða er ekki komin í það ennþá,“ segir Adolf Guðmundsson, stjórnarformaður eignarhaldsfélagsins FF 800. Eigandi félagsins er eignarhaldsfélagið Brimberg.

Liður í endurskipulagningunni fólst í því að sveitarfélagið Árborg kaupir menningarsal í kjallara hótelsins og gengur hann upp í ógreidd fasteignagjöld upp á 79 milljónir króna ásamt vöxtum. Salurinn hefur verið fokheldur frá því hótelið tók til starfa fyrir að verða 30 árum.