Landsvirkjun kannar nú kosti þess að láta leggja 1.170 kílómetra langan sæstreng til Skotlands sem flytja má um 18 TWh á ári af raforku til Evrópu. Með því magni má sjá um 5 milljónum heimila í Evrópu fyrir rafmagni. Þetta kemur fram í frétt á fréttaveitu Bloomberg en þar er það haft eftir Katrínu Júlíusdóttur, iðnaðarráðherra, að verkefnið njóti fulls stuðnings hins opinbera. Sæstrengurinn yrði á lengsti sinnar tegundar í heimi. Verkefnið myndi að sögn Bloomberg kosta um 2,1 milljarða dala, jafngildi um 244 milljarða króna.

Eins og fram kom í umfjöllun Viðskiptablaðsins um verðmæti orkuaðlindarinnar nýlega má, varlega áætlað, gera ráð fyrir að orkuauðlindin sé um 175-200 milljarða króna virði á ári, fari svo að hægt sé að virkja allt að 30 TWh á ári og selja orkuna til Evrópu með sæstreng. Valdimar Ármann, hagfræðingur hjá GAMMA, tekur undir þetta mat í samtali við Bloomberg.

Ísland gæti þurft að reiða sig á erlenda fjárfestingu til þess að láta drauminn um sölu jarðvarmaraforku til Evrópu en Bloomberg hefur eftir Rögnu Söru Jónsdóttur, hjá Landsvirkjun, að það kosti um 300-400 milljónir dala að framleiða eina TWh af jarðvarmaorku en talið er að enn séu 75% þeirrar orku sem býr í iðrum Íslands ónýtt.