Unnið er að slitum vogunarsjóðsins Boreas Capital og hefur skilanefnd nú verið skipuð yfir félaginu skv. upplýsingum úr fyrirtækjaskrá. Skilanefndina skipa þeir Gunnar Rafn Einarsson, lögg. endurskoðandi, og Stefán Sigtryggsson, sem jafnframt er endurskoðandi félagsins.

Frank Óskar Pitt, stjórnarformaður Boreas, segir í samtali við Viðskiptablaðið að lítil starfsemi hafi verið eftir í félaginu og sjóður þess í raun ekki nógu stór til að standa undir sér.

„Eignir sjóðsins voru í erlendum eignum og í landi gjaldeyrishafta er ekki mögulegt að sækja frekari eignir. Það má því segja að gjaldeyrishöftin hafi leitt til endaloka sjóðsins,“ segir Frank.

Viðskiptablaðið greindi nýlega frá því að lítil starfsemi væri eftir í félaginu, sem er í eigu þeirra Franks, Ragnars Þórissonar, Tómasar Áka Gestssonar og Gunnars Fjalars Helgasonar.