Reynt er með öllum ráðum á vinnumarkaðinum að ná heildarsamkomulagi um lausn á þeim bráða vanda sem kominn er upp í kjölfar úrskurðar gerðardóms í máli hjúkrunarfræðinga og BHM á seinasta mánuði. Jafnframt er þess freistað að ná sátt um að innleiða nýtt vinnumarkaðslíkan, sem fest verði í sessi á næstu árum. Fjallað er um málið í Morgunblaðinu í dag.

Fulltrúar stærstu heildarsamtaka á vinnumarkaði, ASÍ, BSRB, BHM, KÍ, SA, ríkisins, sveitarfélaga og Reykjavíkurborgar funda stíft þessa dagana þar sem reynt er að ná heildarsamkomulagi í svonefndum SALEK-hópi. Þessi vinna var sett af stað af krafti í seinustu viku, fundað var yfir alla helgina og síðan, aðallega í húsnæði Ríkissáttasemjara, auk þess sem fundað var með ráðherrum í Ráðherrabústaðnum

Gengið er út frá því að ef samkomulag næst um kjarabætur og launaleiðréttingar vegna gerðardóms, verði að liggja fyrir ótvíræðar skuldbindingar um framhaldið og ennfremur að nýtt vinnumarkaðslíkan verði innleitt á komandi árum. Að öðrum kosti komi ekkert út úr þessum viðræðum.

Meðal þess sem rætt er um sem hluta af lausn er að jafna að fullu lífeyrisréttindi launþega á almennum markaði við réttindi opinberra starfsmanna. Hugmyndir eru um að þær kjarabætur sem ASÍ-félög sem þegar hafa samið, fengju með samkomulaginu, fælust að hluta í auknum lífeyrisréttindum.