Unnur Míla sjóðsstjóri hjá Íbúðalánasjóði tekur við sem framkvæmdastjóri fjárstýringar tímabundið. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Sigurður Jón Björnsson, framkvæmdastjóri fjárstýringarsviðs Íbúðalánasjóðs, hefur ákveðið að láta af störfum, frá og með 1. apríl næstkomandi. Sjóðurinn þakkar Sigurði vel unnin störf á liðnum árum og óskar honum velfarnaðar í komandi verkefnum.

Unnur Míla Þorgeirsdóttir, sjóðstjóri hjá Íbúðalánasjóði, mun taka tímabundið við starfi framkvæmdastjóra fjárstýringar. Unnur hefur lengi starfað á fjármálamarkaði með áherslu á eigna- og fjárstýringu fyrir einstaklinga og stofnanafjárfesta.

Unnur var áður forstöðumaður eignastýringar ALM verðbréfa en starfaði þar áður við stýringu á lausafjársafni Glitnis hf. Hún hefur einnig starfað sem sjóðstjóri erlends ríkisskuldabréfasjóðs hjá Íslandssjóðum, við endurskipulagningu einkabankaþjónustu Íslandsbanka, í fjárstýringu hjá Glitni banka auk þess sem hún var forstöðumaður eignastýringar hjá MP banka.

Unnur útskrifaðist með B.S.-próf í hagfræði frá Háskóla Íslands árið 1998 og lauk prófi í verðbréfaviðskiptum þremur árum síðar. Hún stundar nú með vinnu meistaranám í fjármálum fyrirtækja við HÍ.