*

þriðjudagur, 19. febrúar 2019
Innlent 5. ágúst 2018 13:09

Uppblásin fortjöld seld í gámavís

Meðan innflutningur á fellihýsum hefur nálega horfið heldur fólk enn tryggð við tjaldvagnana þrátt fyrir bleytuna.

Höskuldur Marselíusarson
Fleiri tjaldvagnar en fellihýsi eru nýskráð á göturnar nú en ný uppblásin fortjöld hafa verið mjög vinsæl á allar gerðir ferðavagna.
Haraldur Guðjónsson

Kristín Anný Jónsdóttir sölustjóri Víkurvers segir kauphegðun landans í ferðavögnum og útilegubúnaði ráðast af þægindum, sérstaklega vegna blautrar tíðar síðustu sumur.

Uppblásin fortjöld hafa til að mynda mokast út í gámavís að sögn Kristínar Anný. „Það tekur um tíu mínútur að pumpa þetta upp og þetta helst miklu betur í vindum og veðri heldur en fortjöldin með stangirnar,“ segir Kristín Anný.

Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá hafa fellihýsin nálega algerlega horfið í nýskráningartölum og hefur einungis handfylli verið skráð á göturnar síðustu ár.

Öfundaði fyrsta hjólhýsakaupandann

Þess í stað hafa hjólhýsi náð um 95% af markaðnum yfir nýskráða ferðavagna. „Ég man alltaf eftir því þegar sá fyrsti keypti sér hjólhýsi til að ferðast um landið, það var árið 2003,“ segir Kristín Anný.

„Síðan kom einn á fellihýsi sem sagði að hann hafði horft á manninn koma með hjólhýsið en á meðan hann hafi verið að byrja að tékka upp sitt fellihýsi hafi hinn verið kominn út og sestur með koníaksglasið á fimm mínútum og horft á sig setja upp fellihýsið. Hann sagðist ætla að fá svona hjólhýsi.“

Kristín segir aukninguna í hjólhýsum hafa sérstaklega tekið við sér í fyrra þegar gengið styrktist. „Þá lækkuðu hjólhýsin töluvert í verði frá árinu 2016,“ segir Kristín Anný en þá fjölgaði nýskráningum hjólhýsa um 77%, en árin 2016 og 2015 var aukningin um 40% hvort ár.

„Þá var orðið svo stutt á milli í verði á notuðum og nýjum hjólhýsum í mörgum tilvikum. Það var kannski hægt að fá hjólhýsi árgerð 2008 á 2,8 milljónir en hægt að kaupa nýtt frá 2,9 milljónum og upp úr. Þegar fólk sem var að skoða notuð hjólhýsi sá að það þurfti kannski einungis að greiða milljón í milli til að fá nýtt í sömu stærð, vill fólk það frekar.“

Ferðaþjónustan keypti húsbíla

Mun færri húsbílar eru skráðir á göturnar hér á landi en ferðavagnar, en mikil aukning var í nýskráningum þeirra árið 2016, eða 57%, sem Kristín Anný skýrir með kaupum ferðaþjónustuaðila á húsbílunum.

Það sem af er ári hafa 9 húsbílar verið skráðir á göturnar, en þeir voru 38 í fyrra og 33 árið þar áður. Árin þrjú fyrir það voru um 20 húsbílar fluttir inn til landsins á hverju ári. Samtals hafa 626 ferðavagnar og húsbílar verið nýskráðir það sem af er árinu en athyglisvert er að meðan fellihýsin hafa nær horfið hafa nýskráningar tjaldvagna einungis helmingast.

„Þau virðast ætla að halda sér, en þeir sem eru kannski með léttan bíl halda tryggð við tjaldvagnana. Yfirleitt er það ekki mjög lengi þegar svona veður er búið að vera. Það er íslenska veðráttan og bleytan sem er að hafa áhrif.“