Þau eiga að þjóna íbúum Grafarholts og  Úlfarsárdals og verða samtengd menningarmiðstöð, almenningsbókasafni og sundlaug hverfisins. Þetta kemur fram á vef Reykjavíkurborgar.

Reykjavíkurborg hefur nú þegar byggt gervigrasvöll og grasæfingasvæði í Úlfarsárdal, komið fyrir bráðabirgða búningsaðstöðu og aðstöðu vegna æfinga- og heimaleikja á gervigrassvæði, auk þess sem Fram hefur aðgang að íþróttahúsum Ingunnarskóla og Sæmundarskóla.

Markmið með samningnum er að fullnægja þeim kröfum er íbúar Grafarholts og Úlfarsárdals gera til öflugs íþrótta- og æskulýðsstarfs í hverfinu til framtíðar. Fram stefnir að því að verða fyrirmyndar og alhliða íþróttafélag í hverfinu og skuldbindur félagið sig til þess að annast íþrótta- og æskulýðsstarf fyrir félagsmenn sína, íbúa í  Grafarholti og Úlfarsárdal og á starfssvæði Fram og þjónusta skóla og aðra aðila verði eftir því leitað.

Reykjavíkurborg og Knattspyrnufélagið Fram munu í haust vinna sameiginlega að breyttu deiliskipulagi og er stefnt að því að vinnuhópur skili skýrslu um fyrirkomulag, framkvæmdir og rekstur og staðsetningu knatthússins fyrir 1. desember 2017.