Nýlega greindi The Guardian frá því að sala á iPhone hefði aukist en sala á iPad dregist saman frá áramótum á heimsvísu. Ástæða þess er talin vera að fólk vill stöðugt uppfæra iPhone en finnur síður fyrir þeirri þörf með iPad. Aðspurður um stöðu sölu á tækjunum á Íslandi segir Sigurður Stefán Flygenring, þjónustustjóri fyrirtækjasviðs Macland, að aukning hafi orðið í sölu á bæði iPad og iPhone hér á landi frá áramótum.

Hann segir að þetta stafi meðal annars af verðlækkunum þegar vörurnar fóru í formlega dreifingu frá Apple. Sigurður Stefán segir það breytilegt hvort fólk sé að uppfæra eða kaupa sinn fyrsta iPad. Hins vegar sé mikið um það að viðskiptavinir í eldri kantinum sé að kaupa sinn fyrsta iPad. Hann segir að mikið af fólki sem er með iPhone nú þegar komi að kaupa nýjan iPhone. Það er meira af því heldur en með iPad. Því er um að ræða svipað mynstur og erlendis.