Markaðir vestanhafs hafa aldrei í sögunni verið jafn hátt skrifaðir. Dow Jones vísitalan stendur til að mynda í 19.175 stigum og S&P 500 vísitalan í 2.192 stigum. Margir hafa furðað sig á hækkunum síðustu ára, enda hafa markaðir nánast sífellt hækkað, þrátt fyrir áhyggjur á sviði stjórnmála og efnahags. Ódýrt lánsfé hefur þó líklegast haft mikil áhrif undanfarið.

Greiningaraðilar frá Bank of America lýstu nýlega yfir áhyggjum sínum á Bloomberg fréttastöðinni. Þeirra áhyggjur snúa að því að núverandi uppgangur og sigurför Donald Trumps geti hugsanlega verið upphafið að endanum.

Bankinn styðst einnig við sérstakan mælikvarða sem mælir bjartsýni á Wall Street. Bjartsýnin sem gripið hefur um sig hefur ekki verið jafn mikil í sex mánuði. Samkvæmt Bloomberg virðast fjárfestar vænta allt að 20% hækkun á næstu 12 mánuðum, sem þykir afar mikið miðað við hækkanir undanfarinna ára.

Það telst þó ekki nýtt að menn lýsi yfir áhyggjum á tímum sem þessum, en erfitt eða jafnvel ómögulegt er að tímasetja markaði. Ýmsir aðilar á markaði hafa tekið efnahagsáformum Donald Trump og hans mönnum fagnandi, en aðrir hafa lýst yfir áhyggjum.

Áhyggjurnar beinast aðallega að því að efnahagsstefnan hans geti leitt til óþarfa þenslu, sem muni á endanum hafa afdrifaríkar afleiðingar. Þenslu sem megi jafnvel ekki við á tímum sem þessum, þegar efnahagur Bandaríkjanna er að snúa sér yfir á réttan kjöl og vextir eru enn í sögulegu lágmarki.