Nýjar kynslóðir eru mun grimmari í garð fyrirtækja með illa hannaðar síður og öpp en áður þekkist. Þau fyrirtæki sem bjóða upp á bestu notendaupplifunina sigra og geta náð til sín stórum hluta markaðsins. Sérstaklega er það sú sprenging sem orðið hefur í viðskiptum í gegnum farsíma sem hefur leitt til þess að hönnun viðmóts gefur núorðið mikið samkeppnisforskot. Þetta er meðal þess sem kom fram á Go Digital ráðstefnunni á Hilton Nordic hótelinu þar sem ríflega 300 sérfræðingar og stjórnendur í hugbúnaðarþróun á Íslandi komu saman.

„Á annan tug sérfræðinga, flestir erlendir, héldu erindi á ráðstefnunni og rauði þráðurinn var að fyrirtæki þurfa að tileinka sér hönnunarhugsun og hugsa miklu betur um þarfir viðskiptavina. Gott samspil tækni og hönnunar er lykillinn í samkeppni. Viðskiptavinir nenna ekki lengur að eiga viðskipti við fyrirtæki ef við­ mót í öppum eða á þjónustusíðum er lélegt,“ útskýrir Ólafur Örn Nielsen, framkvæmdastjóri hugbúnaðarfyrirtækisins Kolibri sem stendur fyrir Go Digital.

Byltingin felst í notendaupplifuninni

Ólafur Örn segir að samkeppni fyrirtækja á komandi árum verði háð á grundvelli stafrænnar upplifunar. „Í heiminum öllum eru að spretta upp fyrirtæki sem eru að umbylta mörkuðum. Ekki vegna þess að þau eru að gjörbreyta grunnvörunni sem verið er að selja heldur felst byltingin í frábærri notendaupplifun. Fyrirtæki þurfa að verða miklu betri í að skilja viðskiptavini sína og leiðin til þess er að vera í stöðugri stafrænni vöruþróun þar sem þú ert í beinu sambandi við viðskiptavininn. Við erum að halda þessa ráð­ stefnu í tíunda skipti, sem kallast Go Digital en nefndist áður Agile Ísland.

Nafnið er vísun í þá tæknilegu iðnbyltingu sem er í gangi og áskorun til fyrirtækja að taka þátt í henni. Fyrirtæki munu ekki endilega leggja upp laupana hvað úr hverju en það er algjörlega ljóst að notendaupplifun verður lífsspursmál fyrir þau,“ útskýrir Ólafur. Hann segir meginþema Go Digital ráðstefnanna snúast um það hvernig fyrirtæki ætli sér að takast á við framtíðina. „Við hjá Kolibri höfum verið að starfa mikið í ný­ sköpunargeiranum og ástæðan fyrir því að við réðumst í að halda þessar ráðstefnur er sú að við viljum gefa af okkur til tæknisamfélagsins á Íslandi.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn T ölublöð.