Á þessum degi fyrir 60 árum hófst uppreisn Ungverja gegn Sovétríkunum, en þetta var í fyrsta sinn sem þjóðir sem lentu undir hersetu Sovétríkjanna í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar gerðu uppreisn gegn hersetunni.

Í uppreisninni sem stóð til 4. nóvember létust 3.700 uppreisnarmenn og 300 til viðbótar voru teknir af lífi og tugir þúsunda fangelsaðir í kjölfar þess að Sovéskar hersveitir börðu hana niður.

Sovéskt áhrifasvæði í kjölfar heimsstyrjaldar

Á Yalta ráðstefnunni skiptu sigurvegarar heimstyrjaldarinnar álfunni í áhrifasvæði en þar var jafnframt kallað eftir frjálsum og lýðræðislegum kosningum í öllum ríkjunum.

Sovétríkin hins vegar virtu þau tilmæli að vettugi og komu á fót leppstjórnum í öllum ríkjunum sem herir þeirra höfðu hertekið í stríðinu.

Kröfðust frjálsra kosninga og málfrelsis

Þrátt fyrir ógnartilburði stjórnvalda þá hófst á þessum degi, 23. október 1956 uppreisn íbúa Ungverjalands þar sem krafist var einstaklingsfrelsis og fullveldis landsins.

Stúdentar settu saman sextán punkta lista þar sem krafist var að sovéskar hersveitir myndu yfirgefa landið, frjálsra kosninga og málfrelsis.

Skotið á óvopnaða mótmælendur

Gengu þeir fylktu liði að ríkisútvarpstöðinni þar sem þeir kröfðust þess að punktarnir yrðu útvarpaðir, en öryggissveitir ríkisins svöruðu með vélbyssuskothríð á óvopnaðann hópinn.

Í kjölfarið hófst uppreisnin en 100 þúsund vel vopnaðir Sovéskir hermenn sem staddir voru í landinu ásamt leppum börðust gegn almennum borgurum og ungverska hernum sem tók þátt í uppreisninni.

Vesturlönd sýndu engin viðbrögð

Á tímabili virtist sem Sovétmenn hefðu hörfað og byltingarstjórn var sett á í landinu en þegar að engin viðbrögð komu frá vesturlöndum réðst sovéski herinn á ný til atlögu þann 4. nóvember.

Uppreisnin kostaði 3.700 mannslíf og um 20 þúsund manns særðust. Í kjölfarið voru 300 manns teknir af lífi, 21.700 manns settir í fangelsi og um 200 þúsund flúðu land. Ísland var eitt þeirra landa sem tóku við flóttamönnunum.

Minningu fórnarlamba haldið á lofti

Í kjölfar þess að járntjaldið féll fyrir 25 árum síðan hefur verið haldið upp á daginn í landinu og minningu þeirra sem létust í baráttunni fyrir frelsi landsins.

Í dag er forseti Póllands, Andrzej Duda, sérstakur gestur hátíðarhaldanna í höfuðborginni Budapest. Hérna er hægt að hlusta á útvarpsávarp útvarps frjálsra Ungverja þar sem þeir kalla eftir hjálp Vesturlanda meðan á uppreisninni stóð.