Það óhætt að segja að afkoma Byggingafélags Gylfa og Gunnars hf., sem gjarnan er nefnt BYGG, endurspegli á margan hátt þann uppgang sem hefur verið í íslensku þjóðfélagi undanfarin misseri. Sést það einna best í bættri afkomu fyrirtækja í byggingargeiranum og er félagið þar engin undantekning. Á fjórum árum hefur hagnaður BYGG þannig aukist um 794% og veltan um 127%.

Eigendur BYGG eru þeir Gylfi Héðinsson múrarameistari og Gunnar Þorláksson byggingameistari og hefur fyrirtækið jafnframt stundað leigurekstur samhliða byggingarframkvæmdum. Gylfi segist líta framtíðina björtum augum enda verkefnastaða fyrirtækisins sérstaklega góð.

Úr 115 milljónum í 1 milljarð

Á heimasíðu fyrirtækisins segir að byggingafélagið hafi á undanförnum árum byggt yfir 3.000 íbúðir á almennum markaði ásamt íbúðum fyrir Félag eldri borgara og húsnæð­ isnefndir í Reykjavík og Kópavogi. Félagið hefur einnig byggt tugþúsundir fermetra af atvinnuhúsnæði og sérhæft sig í leigu á skrifstofu og verslunarhúsnæði.

Ársreikningar síðustu ára sýna svo ekki verði um villst að hagur félagsins hefur vænkast til muna á fjórum árum. Þannig hafa rekstrartekjurnar aukist um 225% eða úr 3,3 milljörðum árið 2013 í 10,7 milljarða árið 2016. Á sama tímabili jókst hagnaður félagsins úr 115 milljónum króna í rúman einn milljarða, eða sem nemur 794% aukningu á fjórum árum.

Eigið fé BYGG hefur einnig margfaldast frá árinu 2013 til 2016 eða úr 607 milljónum króna í tæpa þrjá milljarða, er þar um að ræða 392% aukningu. Handbært fé í enda árs hefur einnig aukist úr 50 millj­ ónum í 182 milljónir á sama tímabili.

Aukinn leigurekstur og tækifæri á Suðurnesjunum

Eins og gefur að skilja þá segir Gylfi að velgengni félagsins megi helst rekja til uppgangsins í samfélaginu en annað spili þó einnig inní. „Reksturinn hefur gengið vel, en hjá okkur starfar samhentur og öflugur hópur starfsfólks. Reksturinn samanstendur af byggingarstarfsemi og leigurekstri, sem einnig hefur gengið vel,“ segir Gylfi og viðurkennir að líklegt sé að BYGG muni auka umsvif sín þegar kemur að leigurekstri í framtíðinni.

Spurður nánar út í framtíðina segist Gylfi líta hana björtum augum. „Við erum vel settir með lóðir og keyptum m.a. nýverið 500 lóðir í Keflavík þar sem við munum reisa 500 íbúðir sem verða boðnar til sölu á almennum markaði. Auk þess erum við að byggja í Lundinum í Kópavoginum, á Kársnesi og á fleiri stöðum.“

16,2 milljarða gjaldþrot

Félagið CDG ehf., sem áður hét Bygg Invest ehf. og var í eigu þeirra Gylfa og Gunnars var tekið til gjaldþrotaskipta í apríl 2011 og þótti það sæta nokkrum tíðindum. Kröfur í búið námu 16,2 milljörðum króna en upp í þær fengust hins vegar aðeins 226 milljónir króna eða um 1,4%.

Félagið breytti um stefnu og hóf starfsemi sem fjárfestingafélag á árinu 2006 en fram að því höfðu eigendurnir, Gunnar og Gylfi, aðallega verið í verktakastarfsemi og hét félagið fram að því Bygg hf. Eftir að félagið hóf fjárfestingastarfsemi gerðist það umsvifamikið á hlutabréfamarkaði og fjárfesti m.a. í hlutabréfum í gamla Glitni, gamla Landsbankanum og FL Group.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .