Bandaríska tæknifyrirtækið Twitter mun segja upp 336 starfsmönnum, sem eru um 8% af heildarstarfsmannafjölda fyrirtækisins. Nýr forstjóri Twitter, Jack Dorsey, kynnti þessar breytingar í dag og segir markmiðið að einfalda og hagræða í rekstrinum svo hægt sé að koma nýjum vörum fyrr á markað.

Flest störfin, sem hverfa munu, eru í verkfræði- og vöruþróunardeildum Twitter. Í frétt Bloomberg segir að í þessum deildum hafi starfsmönnum og verkefnum fjölgað um of og að afleiðingin hafi verið sú að óvissa var um ábyrgð á einstökum verkefnum og markmiðum. Því hafi vöruþróun dregist úr hófi og hægt hafi á viðbragðsflýti fyrirtækisins.

Viðbrögð markaða voru jákvæð, en það sem af er degi hefur gengi félagsins hækkað um 3,13%. Innan dags nam hækkunin þó 5,5%. Í gær hafði gengi bréfa félagsins lækkað um 20% frá áramótum.