Almennt einkenndi uppsveifla hlutabréfamarkaði á heimsvísu árið 2016, einkum á síðari hluta ársins. Mestar hækkanir á hlutabréfavísitölum voru í Ameríku. Þetta kemur fram í samantekt CNN Money .

Hlutabréfavísitölur í Bandaríkjunum náðu nýjum hæðum. Dow Jones iðnaðarvísitalan hækkaði um 13,4% og náði nýju hámarki við 19,988 stig þann 20. desember. S&P 500 vísitalan hækkaði um um 9,4% og Nasdaq-vísitalan hækkaði um 7,5%.

Í Rússlandi hækkaði RTS vísitalan um 52% í dollurum árið 2016. Micex-vísitalan, sem er vísitala kauphallarinnar í Moskvu, hækkaði einnig um 27% í rúblum. Hækkanir í Rússlandi má rekja til kjörs Donalds Trump í forsetakosningunum í Bandaríkjunum í nóvember, en fjárfestar hafa fest fé sitt í rússneskum hlutabréfum vegna væntinga um að samskipti Bandaríkjanna og Rússlands muni bætast undir forsæti Trumps. Rússneski hlutabréfamarkaðurinn naut einnig góðs af hækkunum í olíuverði undir lok ársins, en landsframleiðsla Rússlands er að miklu leyti háð tekjum af olíu.

Merval-vísitalan í Argentínu hækkaði um 45% árið 2016 og náði hápunkti í október. Pólitískar sviptingar þar í landi og aukin bjartsýni fjárfesta í kjölfarið hafa haft áhrif á hlutabréfamarkaðinn í Argentínu. Árið 2015 var Mauricio Macri kjörinn forseti Argentínu, en frá þeim tíma hefur Argentína aflétt gjaldeyrishöftum, lokið 15-ára átökum við bandaríska vogunarsjóði og komist inn á hinn alþjóðlega skuldabréfamarkað á nýjan leik. 18% fall í gengi argentínska pesóans á árinu hafði einnig jákvæð áhrif á hlutabréfamarkaðinn.

Í Brasilíu gekk allt á afturfótunum í byrjun ársins vegna Petrobras-spillingarmálsins, en Bovespa-vísitalan náði 8-ára lágmarki í janúar. En vísitalan tók kipp og hækkaði um 39% á árinu eftir að meiri stöðugleiki náðist í stjórnmálum landsins. Einnig höfðu hækkandi hrávöruverð áhrif á hlutabréfamarkaðinn, en helstu útflutningsvörur Brasilíu – járn, olía og soja baunir – hækkuðu allar talsvert í verði á árinu.

Í Kanada hækkaði TSX Composite vísitalan í Toronto um 17,5% á árinu eftir að hafa verið í lægð í janúar. Hlutabréf í Kanada hækkuðu talsvert eftir kjör Trumps, því fjárfestar vænta þess að efnahagsstefna Trumps muni, á heildina litið, hafa jákvæð áhrif á kanadíska hagkerfið, t.d. í orkuútflutningi.

Hlutabréfavísitalan fyrir öll skráð hlutabréf í Noregi hefur hækkað stöðugt frá fjármálakreppunni árið 2008. Vísitalan lækkaði snemma árið 2016 vegna hruns í olíuverði, en í lok ársins hafði vísitalan hækkað um 18%. Sérstaklega hefur gengi bréfa í orkufyrirtækjum hækkað á árinu eftir að verð á hráolíu tvöfaldaðist frá því í febrúar. T.a.m. hækkaði stærsta olíufyrirtæki Noregs, Statoil, um 29% á árinu.

Hlutabréfamarkaðurinn í Indónesíu hækkaði um 15%. Landsframleiðsla fer þar vaxandi með miklum vexti í einkaneyslu og spáir Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn 5,3% hagvexti þar í landi fyrir árið 2017.

Þrátt fyrir dómsdagsspár um hnignun og afturför í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu í Bretlandi um útgöngu úr Evrópusambandinu í júní hækkaði FTSE 100 vísitalan í Bretlandi um 14,4% árið 2016. Gengishrun pundsins í kjölfar Brexit atkvæðagreiðslunnar hafði örvandi áhrif á hlutabréfamarkaðinn. Seðlabanki Englands lækkaði vexti í ágúst og hagtölur voru einnig umfram væntingar, og leiddi það til aukinnar bjartsýni á hlutabréfamarkaði.

Þó voru talsverðar lækkanir á hlutabréfamörkuðum víða um heim á árinu sem var að líða. FTSE MIB vísitalan á Ítalíu lækkaði um 10% vegna áhyggja um stöðu bankakerfisins þar í landi. Þá þurrkaðist út um 25-30% af markaðsvirði kínversks hlutafjár í byrjun ársins vegna hægjandi hagvaxtar í Kína, en Shanghai Composite vísitalan lækkaði um 12% á árinu og Shenzhen markaðurinn lækkaði um 15%.