Töluverður munur er á nýlegum hagspám greiningardeilda Arion banka og Íslandsbanka og spám þeirra sem birtar voru fyrir ári. Helsti munurinn er fólginn í því að þær búast við enn kröftugri einkaneyslu og frekari fjárfestingum en útlit var fyrir haustið 2014. Samkvæmt hagspá greiningardeildar Arion banka sem birtist í gær býst deildin við 5,4% hagvexti á þessu ári, 4,1% á því næsta og svo 3,1% hagvexti árið 2017. Fyrir ári gerði hún ráð fyrir 3% hagvexti í ár og 2,9% árið 2016. Svipaða sögu er að segja frá þjóðhagsspá Greiningar Íslandsbanka en í henni er gert ráð fyrir 4,3% hagvexti á árinu, 4,4% hagvexti á næsta ári og 2,5% hagvexti árið 2017. Í þjóðhagsspá Greiningar Íslandsbanka sem birtist í fyrra var búist við þriggja prósenta hagvexti á árinu og svo 2,9% hagvexti árið 2016. Vert er að taka fram að Hagfræðideild Landsbankans birti síðast hagspá sína í maí en von er á nýrri hagspá hennar í næsta mánuði. Samkvæmt síðustu spá gerir hún ráð fyrir 4,3% hagvexti á árinu en það er svipað og hún hafði spáð í nóvember í fyrra.

Vöxtur í einkaneyslu og fjárfestingu

Greiningardeildir Arion banka og Íslandsbanka spá báðar miklum vexti einkaneyslu og fjárfestingu. Að sögn Ingólfs Bender, forstöðumanni Greiningar Íslandsbanka, hafa þær tölur sem birst hafa um hagvöxt á árinu verið nokkuð umfram það sem þau höfðu spáð áður. „Það sem fyrst og fremst skilur á milli spár okkar og þessara talna er kröftugur vöxtur í einkaneyslu, fjárfestingu og útflutningi,“ segir hann. „Þar bætast einnig við tölur um kortaveltu einstaklinga, innflutning á bifreiðum og utanlandsferðir landsmanna sem benda til þess að einkaneysla sé að taka við sér hraðar en við gerðum ráð fyrir áður. Síðan byggjum við inn í þessa spá meiri fjárfestingu í stóriðju. Áður tókum við um 85% af þeim fjórum stóru verkefnum sem voru í áætlun en nú höfum við fyllst meiri bjartsýni. Önnur atvinnuvegafjárfesting er einnig að koma hraðar upp en við gerðum ráð fyrir áður. Það er atvinnuvegafjárfesting sem tengist útflutningi, þá sérstaklega í ferðaþjónustu.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .