Að mati Greiningar Íslandsbanka hefur uppsveiflan í íslensku hagkerfi náð hámarki og dragi jafnt og þétt úr vextinum á næstu árum. Þrátt fyrir að nú sígi á seinni hluta hagsveiflunnar stefnir enn í að núverandi hagsveifla verði sú lengsta í seinni tíma hagsögu Íslands.

Spáir bankinn, nokkru minni hagvexti í ár en var á síðasta ári, eða 5,3%, en á næsta ári verði hann 3,0% og svo 2,9% árið 2019. Jafnframt að atvinnuleysið hafi náð lágmarki í ár, í 2,5%, en það verði 2,7% á næsta ári. Vöxtur kaupmáttar launa minnki jafnframt milli ára, fari úr því að vera 4,8% í ár, niður í að vera 3,3% á næsta ári.

Færri merki um verulegt ójafnvægi

Segja þeir hægari vöxt skýrast af því að það muni hægjast á einkaneyslu og útflutningi, en á móti komi að mun færri merki séu um verulegt ójafnvægi í þjóðarbúskapnum en á fyrri uppsveifluskeiðum.

Það þýðir að meiri líkur séu á að vaxtaskeiðinu ljúki með mjúkri lendingu en áður. Á sama tíma sé útlit fyrir að alþjóðlegur hagvöxtur fari loks að taka við sér, hvort tveggja í nýmarkaðslöndum sem muni vaxa enn hraðar, en einnig í þróuðum ríkjum sem hafi verið sein að taka við sér.

Fari því hagvöxtur hérlendis úr því að vera ríflega tvöfaldur meðalvöxtur á heimsvísu eins og var á síðasta ári, niður í að vera heldur hægari en meðalvöxturinn árið 2019.

Spá 2,3 milljón ferðamönnum

Greining Íslandsbanka spáir því að áfram verði vöxtur í komu ferðamanna hingað til lands, sem hefur verið helsta stoð útflutningsvaxtarins, en heldur dragi úr vextinum samt sem áður.

Spá þeir því að heildarfjöldi ferðamanna hingað til lands verði 2,3 milljónir á þessu ári, sem jafngildi 30% fjölgun, en fjölgunin í fyrra nam 40%. Jafnframt spáir bankinn því að ferðaþjónustan standi undir 45% af gjaldeyristekjum þjóðarbúsins, meðan sjávarútvegur og áliðnaður skili samanlagt 31% þeirra.

Þó um 4/5 af þeim 11% vexti sem varð á heildarútflutningi síðasta árið komi frá þjónustuútflutningi, þá sér í lagi ferðaþjónustu, spáir bankinn því að úr þeim vexti dragi á næstunni. Á hinn bóginn spá þeir því að líkur séu á auknum útflutningi sjávarafurða, með vaxandi þorskveiði, sem og að útflutningur iðnaðarvara muni einnig vaxa lítillega.

Afgangur af viðskiptajöfnuði

Á sama tíma og vöxtur inn- og útflutnings muni dragast saman muni þó vöxtur innflutningsins aukast öllu hraðar og framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar verði því neikvætt í heildina. Hins vegar verði áfram afgangur af viðskiptajöfnuði út spátímann, með 5% afgangi í ár, tæpum 4% á næsta ári og ríflega 3% árið 2019.

Áfram spáir bankinn miklum vexti íbúðafjárfestinga, eða 25% í ár og 16% á næsta ári. Jafnframt spáir bankinn að verðbólga verði áframhaldandi hófleg, þó hún fari yfir 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans um næstu áramót, og verði að jafnaði 3,0% á næsta ári. Árið 2019 spá þeir að hún verði 2,9%.