Tryggingafélagið TM hagnaðist um 966 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi, sem er mikil breyting frá sama rekstrartímabili í fyrra en þá nam hagnaðurinn 10 milljónum. Rekja má breytinguna til góðrar afkomu félagsins á fjárfestingamarkaði en fjárfestingartekjurnar námu alls 1.326 milljónum samanborið við 409 á fyrsta ársfjórðungi í fyrra.

Samsett hlutfall er einn aðalmælikvarði á afkomu vátryggingarekstrar en það er skilgreint sem tjónakostnaður og rekstrarkostnaður sem hlutfall af iðgjöldum. Á fyrstu þremur mánuðum ársins var þetta hlutfall 106% samanborið við 107% á sama tímabili í fyrra. Í tilkynningu frá TM segir að þetta sé vegna þess að fyrstu þrír mánuðir ársins séu yfirleitt tjónaþungir. Það endurspeglast í því að þegar litið er til síðustu tólf mánaða þá er hlutfallið 97%.  Áætlanir félagsins gera ráð fyrir því að á þessu ári muni samsetta hlutfallið lækka nokkuð og verða 94%.

Rekstrarkostnaður hækkaði nokkuð á milli ára. Hann nam 966 milljónum króna en var 891 milljón á sama tíma í fyrra. Kostnaðurinn var hærri en stjórnendur TM höfðu vænst og var kostnaðarhlutfallið 24%.

„Helstu skýringar á því liggja í kostnaðarliðum sem féllu til á fyrsta fjórðungi en áætlanir gerðu ráð fyrir að myndu dreifast yfir lengra tímabil." segir í tilkynningunni „Stefnt er að því að kostnaðarhlutfall félagsins á árinu verði 20%, en langtímamarkmið TM er að ná kostnaðarhlutfalli undir 20%."

Hagnast á laxeldi

Eins og áður sagði námu fjárfestingartekjur TM 1.326 milljónum á fyrsta ársfjórðungi en það jafngildir 5,2% ávöxtun. Í tilkynningu segir að aukningu fjárfestingartekna skýrist fyrst og fremst af góðri afkomu af hlutabréfum. Sérstaklega er tekið fram að afkoma af óskráðum hlutabréfum hafi verið góð og er vísað í viðskipti með eignarhlut TM í Kvitholmen.

Kvitholmen er norskt eignarhaldsfélag, sem á stóran hlut í laxeldisfyrirtækinu Arnarlaxi. Í febrúar seldi TM 3% eignarhlut í Kvitholmen og við það bókfærðust ríflega 300 milljónir króna. TM á enn ríflega 4% eignarhlut í Kvitholmen.

Afkoma af skráðum hlutabréfum ver einnig góð eða rúm 14%. "Afkoma hlutabréfa og sjóða skýra rúmlega tvo þriðju hluta fjárfestingatekna fjórðungsins. Afkoma annarra eignaflokka var einnig með ágætum en ávöxtun þeirra var 2,1% á fjórðungnum.

Vegna góðrar afkomu á fyrsta ársfjórðungi og það sem af er öðrum fjórðungi hefur félagið uppfært nú spá sína um fjárfestingartekjur fyrir allt árið. Nýja spáin gerir ráð fyrir því að fjárfestingartekjur verði ríflega 3,6 milljarðar en eldri spá miðaði við ríflega 2,3 milljarða.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.