Lítill vöxtur hefur verið á gosdrykkja markaðnum undanfarin ár og er það sögð ástæðan fyrir því að stórfyrirtækin Pepsi og Coca Cola eru nú að leita að nýjum tækifærum. Reuters greinir frá því að fyrirtækin renni bæði hýru auga til fyrirtækisins Chobani, sem  í dag er stærsti framleiðandi grískrar jógúrtar í Bandaríkjunum.

Sagt er að Pepsi og Coke vilji hasla sér völl í heilsugeiranum en grísk jógúrt er fituminni en hefðbundin jógúrt og inniheldur meira prótein. Vinsældir grískrar jógúrtar hafa aukist mjög undanfarin ár. Chobani er metið á 3 milljarða dollara eða um 375 milljarða króna.

Fyrirtækið Chobani hefur vaxið mikið á síðustu árum. Fyrirtækið var stofnað árið 2005 þegar Hamdi Ulukaya, tyrkneskur innflytjandi, keypti gamla verksmiðju af Kraft Foods í smábænum New Berlin í New York fylki. Í dag starfa 1.200 manns hjá Chobani