Heildartekjur fjarskiptamarkaðarins námu 54.834 milljónum króna á síðasta ári og jukust þær um 5% á milli ára. Þetta kemur fram í nýjustu skýrslu Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) um fjarskiptamarkaðinn. Um 29% af heildartekjum fjarskiptafélaga koma af farsímarekstri en sú hlutdeild hefur minnkað jafnt og þétt á síðustu árum.

Til marks um breytta tíma í rekstri fjarskiptafélaga kemur nú inn liðurinn sjónvarpsþjónusta í fyrsta sinn í reikninginn í skýrslu PFS en hún telur um 6% af heildartekjunum á síðasta ári. Tekjur af gagnaflutningi og internetþjónustu eru um 18% af heildartekjum á meðan fastanetið tekur um 14% og talsímarekstur um 12%. Vægi talsímareksturs hefur minnkað töluvert á síðustu árum á meðan gagnaflutningar og fastanetið halda svipuðu hlutfalli af heildartekjum markaðarins.

Í síðustu skýrslum hefur það komið skýrt fram að fjarskiptafélög eru að þróast frá því að vera fyrst og fremst símafyrirtæki yfir í að sinna að megninu til netþjónustu. Frá sjónarhóli neytandans sést þetta að mestu á því að símtöl og sms-sendingar eru farin að verða „gjaldfrjáls“ hluti af pakka þar sem gagnamagn er aðalatriðið. Þetta sést einnig á sviði sjónvarpsþjónustu þar sem internetið á ríkari þátt í sjónvarpsáhorfi landsmanna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .