Advania hefur á stuttum tíma breyst í alþjóðlegt fyrirtæki á sviði upplýsingatækni. Ægir Már Þórisson tók við sem forstjóri fyrirtækisins í október síðastliðnum en hann hefur lagt áherslu á það í stjórnartíð sinni að færast nær viðskiptavinum fyrirtækisins og bæta þjónustu og ráðgjöf þess enn frekar. Reksturinn hefur farið batnandi og nú hefur Advania skilað besta ársfjórðungi í sögu fyrirtækisins.

Hvernig kom uppgjör fyrsta ársfjórðungs út hjá ykkur?

„Árið fer afar vel af stað hjá okkur og samanborið við fyrstu ársfjórðunga undanfarinna ára, er þessi sá besti sem við höfum séð. Tekjur á fyrsta ársfjórð­ ungi standa nokkurn veginn í stað á milli ára en rekstrarhagnaður jókst um 25% á milli ára. Við erum ánægð með þann árangur, sérstaklega í ljósi þess að líkt og önnur fyrirtæki fengum við á okkur óvæntan kostnaðarauka vegna breytinga á kjarasamningum. Það hefur verið góður gangur á öllum sviðum og verkefnastaðan mjög góð. Maður finnur það svolítið að verkefnin sem við erum að fást við hafa verið að breytast.“

„Hingað til hafa flestöll verkefni á sviði upplýsingatækni á Íslandi snúist um varnarleik. Þau hafa snúist um að skera niður kostnað, ná betri tökum á hlutunum og annað slíkt. Við merkjum það að fyrirtæki eru í auknum mæli farin að horfa til framtíðar og velta fyrir sér sóknarleik, hvernig þau geti verið betur í stakk búin til að bæta samkeppnisforskot og annað slíkt. Tíðarandinn og þær breytingar sem átt hafa sér stað í upplýsingatækni á síðustu árum hafa líka haft þau áhrif að fyrirtæki líta á snjalla notkun á upplýsingatækni sem lykil að samkeppnisforskoti. Okkar þjónustuloforð felst einmitt í þessu, við hjálpum fyrirtækjum að ná ávinningi með snjallari beitingu á tækni. Ef maður ætti að gera upp á milli verkefna sem við fáumst við, þá myndi ég segja að það eru slík verkefni sem eru langskemmtilegust, þegar við vinnum með viðskiptavinum okkar að því að auka virði þess sem þeir fást við. Lykillinn í slíkum verkefnum er gott og gagnvirkt samstarf við viðskiptavini.“

Nánar er rætt við Ægi í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .