*

laugardagur, 20. október 2018
Innlent 10. janúar 2018 19:31

URÐ í verslanir í Bretlandi

Vörur frá URÐ eru nú fáanlegar í verslunum Anthropologie í Bretlandi en fyrirtækið rekur 200 verslanir á heimsvísu.

Gunnar Dofri Ólafsson
Erla Gísladóttir er stofnandi URÐar sem selur nú vörur sínar í Bretlandi.
Haraldur Guðjónsson

Sápur frá URÐ voru teknar í sölu í breska hluta verslanakeðjunnar Anthropologie, sem rekur um 200 verslanir á heimsvísu – þar af þrettán í Bretlandi. Vörurnar er þegar hægt að kaupa í verslunum á Íslandi, til dæmis í Epal, Norræna húsinu og víðar.

„Allt frá því ég var krakki hef ég búið til og selt allskonar vörur. Ég get því eiginlega ekki sagt nákvæmlega hvenær þetta byrjaði. Þetta er bara framhald hjá mér. Fyrir kannski átta árum var ég mikið að setja ljósmyndir á myndakubba og gefa í jólagjafir og vinafólk mitt með verslun í bænum bað mig að selja vörurnar þar. Þá sá ég að ég gæti selt það sem ég var að búa til,“ segir Erla Gísladóttir, stofnandi URÐar.

„Fyrir tveimur árum langaði mig að taka þetta enn lengra og búa til enn meiri upplifun úr myndunum mínum og fór að þróa ilmi og hef lengi blandað mín eigin krem og andlitsolíur. Það var því í beinu framhaldi að ég fór að blanda ilmolíur í eldhúsinu heima og fór að þróa sögu um fjóra árstíðarbundna ilmi. Þeir eiga allir sitt lýsandi nafn, form og liti.“

Síðar var Erla líka farin að þróa og hanna sápur. „Ég lærði það á því að skoða þúsundir myndbanda af sápugerð. Út frá því þróaði ég og hannaði mót sem ég fékk þrívíddarteiknara til að teikna upp.“ Sápurnar líta því út eins og fjallatoppar sem er enn önnur vísun í nafn fyrirtækisins.

Í desember tók Urð þátt í jólamarkaði í Strassborg eftir að Erla rakst á auglýsingu hjá Íslandsstofu en Ísland var heiðursgestur á markaðnum.

„Rétt áður en ég fór til Frakklands hafði svo innkaupastjóri Anthropologie í Bretlandi samband. Hún hafði verið á ferðalagi um Ísland og sá sápurnar og vildi fá sendar prufur. Ég fékk strax þau viðbrögð að þau vildu taka vörur í sölu,“ segir Erla.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér. Meðal annars efnis í blaðinu er:

 • Arctic Surfers býður upp á brimbrettaferðamennsku við strendur Íslands
 • Aukið fé hefur verið lagt í olíuleit að undanförnu en umhverfisráðherra telur áform um olíuvinnslu ekki siðferðislega rétt
 • Forstjóri Origo er í viðtali um nýja nafnið og framtíð fyrirtækisins
 • Fíkniefni hafa lækkað um allt að helming að raunvirði síðasta áratuginn
 • Í 80 fermetra íbúð rúmuðust að meðaltali þrjú herbergi árið 1980 en í dag rúmast aðeins tvö
 • Skeljungur veðjar á netverslun með kaupunum á Heimkaupum
 • Eignarhluti íransks manns í skemmtistaðnum Austur hefur verið kyrrsettur
 • Ítarlegt viðtal við Eyjólf Pálsson, framkvæmdastjóra og stofnanda hönnunarverslunarinnar Epal
 • KVAN var stofnað fyrir 18 mánuðum en það leggur upp úr að hjálpa fólki við að hjálpa sér sjálft
 • Fyrirtækið Propose Iceland býður ferðamönnum upp á að hjálpa þeim við að bera upp bónorðið
 • Nýr framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá ORF líftækni er tekinn tali
 • Óðinn er á sínum stað og fjallar um launamál og úrskurði kjararáðs
 • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem spyr um hlutverk Viðskiptaráðs