Eftir að dómskvaddir matsmenn komust að þeirri niðurstöðu að ríkið hafi valdið því að Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum hafi orðið af þriggja milljarða króna hagnaði standa nú yfir viðræður um greiðslur að því er Morgunblaðið greinir frá.

Vegagerðin og sambandið höfðu gert með sér samning í byrjun árs 2012 um uppbyggingu almenningssamgangna á Suðurnesjum sem fól m.a. í sér einkaleyfi á leiðinni milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur. Átti að nýta hagnað af þeirri leið til að greiða niður almenningssamgöngur á svæðinu öllu. Eftir útboð var samið við Kynnisferðir og dótturfélag þeirra, SBK.

Einkaleyfið í trássi við EES

Í kjölfarið komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að það samrýmdist ekki EES samningnum að veita einkaleyfi á leið sem skilaði hagnaði og felldi því Vegagerðin einkaleyfið niður eftir ákvörðun ráðherra síðla árs 2013.

Sambandið stefndi ríkinu í kjölfarið og eftir niðurstöðu matsmannanna reynir það nú að komast að niðurstöðu með ríkinu um viðeigandi skaðabætur að sögn Berglindar Kristinsdóttur framkvæmdastjóra SSS.

Segir hún að skaðabæturnar yrðu nýttar til að byggja upp gott almenningssamgöngukerfi, en SBK hafði rift einhliða samningum um akstur á tveim leiðum á Suðurnesjum. Sögðu þeir að villa hefði verið í tilboðinu og svo mikill halli væri á rekstri leiðanna að hann myndi enda í þroti.

Í kjölfarið samdi SSS við Hópbíla og Hópbifreiðir Kynnisferðir um akstur á þessum leiðum fyrir hærra verð. SBK sem breytti nafni sínu í ABK var tekið til gjaldþrotaskipta eftir að hafa verið stefnt í júní vegna samningsbrota. Berglind segir að sambandið hafi lagt fram kröfu upp á 63 milljónir í þrotabú félagsins.