Nú standa yfir kynningar tíu stigahæstu teymanna í frumkvöðlakeppninni Gullegginu að því er fram kemur í fréttatilkynningu. Viðskiptablaðið fjallaði um hugmyndirnar tíu sem komust í úrslit þegar þær voru kynntar á sínum tíma.

Dómnefnd skipuð tólf fulltrúum bakhjarla auk fjárfesta og annarra sérfræðinga tekur að lokum ákvörðun um það hver stendur uppi sem sigurvegari Gulleggsins haustið 2017, en úrslit verða kunngjörð á lokahófi Gulleggsins sem hefst kl. 18:00 á Háskólatorgi Háskóla Íslands, í kvöld laugardaginn 28. október. Hátíðin er opin öllum þeim sem hafa áhuga.

  • Gulleggið er frumkvöðlakeppni á vegum Icelandic Startups
  • Gulleggið fagnaði 10 ára afmæli fyrr á árinu
  • Keppnin er í fyrsta skipti haldin tvisvar sinnum sama ár en mun framvegis verða haldin á haustin
  • Kynningar tíu stigahæstu hugmyndanna fyrir dómnefnd standa yfir fram eftir degi 28. október
  • Landsbankinn veitir þeim hugmyndum sem lenda í efstu þremur sætunum alls 3 milljónir króna í peningaverðlaun.
  • Úrslit hefjast kl 18:00 á Háskólatorgi í Háskóla Íslands og eru allir áhugasamir velkomnir

Fyrr á árinu fagnaði Gulleggið 10 ára afmæli en um 2.400 viðskiptahugmyndir hafa borist í keppnina frá upphafi. Undanfarna tvo mánuði hafa þátttakendur sótt námskeið og fengið þjálfun í mótun viðskiptahugmynda og uppbyggingu fyrirtækja. Nú síðast hafa topp tíu teymin fengið leiðsögn við undirbúning fjárfestakynningar sem haldin er fyrir dómnefnd í dag og ráðast úrslit af niðurstöðum hennar.

Í kvöld fer fram lokahóf keppninnar á Háskólatorgi Háskóla Íslands þar sem niðurstaða dómnefndar verður kynnt og verðlaun og viðurkenningar veittar. Þær hugmyndir sem lenda í efstu þremur sætunum hljóta alls 3 milljónir króna í peningaverðlaun frá Landsbankanum. Fulltrúar topp tíu teymanna kynna hugmyndir sínar fyrir gestum hátíðarinnar á 60 sekúndum. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands mun ávarpa gesti, kynna úrslitin og afhenda sigurvegara verðlaunagripinn, Gulleggið.

Ár hvert leitum við til upprennandi hönnuðar úr Listaháskóla Íslands sem hannar verðlaunagrip keppninnar. Hönnuður Gulleggsins að þessu sinni er Sóley Þráinsdóttir, nýútskrifaður vöruhönnuður frá Listaháskóla Íslands (sjá mynd). Úrslit Gulleggsins fara fram í Háskóla Íslands á milli klukkan 18:00 og 21:00 í kvöld, laugardaginn 28.október. Allir velkomnir - skráning fer fram á: https://lokahofgulleggsins-2017.eventbrite.com

Um Gulleggið

Icelandic Startups stendur árlega fyrir Gullegginu en keppnin er haldin að fyrirmynd MIT- háskóla í Bandaríkjunum. Meginmarkið keppninar er að skapa vettvang fyrir ungt athafnafólk til að öðlast þjálfun og reynslu í mótun nýrra viðskiptahugmynda og rekstri fyrirtækja.