Rúmur mánuður er liðinn frá því að sjómenn felldu kjarasamninga og lögðu niður störf. Langt var í land í kjaraviðræðum sjómanna og útgerðarinnar fyrir áramót, en á nýju ári hafa mál þó þokast áfram. Kominn er gagnkvæmur skilningur á nokkrum stórum málum, en deilan er þó enn á viðkvæmu stigi.

Fundað var í húsakynnum ríkissáttasemjara á þriðjudaginn. Ekki verður samið í þessari viku, þar sem boðaður hefur verið fundur á mánudaginn næstkomandi. Fram að þeim tíma munu hagsmunaaðilar beggja vegna samningaborðsins funda sín á milli.

Mál þokast áfram

Konráð Alfreðsson, varaformaður Sjómannasambands Íslands (SSÍ), segir viðræðurnar við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) hafa þokast áfram, en að strandað hafi verið á „stóru málunum“ síðastliðinn þriðjudag.

„Staðan í viðræðunum er sú að það var ákveðið að staldra við og taka hlé. Mál hafa þokast áfram. Það hefur gengið þokkalega að ná sátt um þrjú stór mál, þó ekki sé búið að skrifa undir nokkuð. Við erum samt komin á svolítið erfiðan stað. Menn vilja sjá árangur í þessu eilífa og erfiða máli með blessaða olíuverðsviðmiðið. Menn vildu heyra í sínum baklöndum, bæði samninganefndir og sjómenn, og meta stöðuna áður en lengra er haldið,“ segir Konráð.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, segir mikið hafa áunnist í viðræðum við sjómenn frá því að þeir felldu kjarasamninga í nóvember. „Okkur hefur miðað nokkuð vel áfram. Það er ekki búið að komast að endanlegri niðurstöðu um einstakar kröfur og það er ekkert fast í hendi. En við erum þó komin með sameiginlegan skilning á þrjár nokkuð umfangsmiklar kröfur sjómanna. Við sjáum hvort það sé flötur fyrir að ná saman um samning á mánudaginn.“

Vill ekki láta dæma fyrir sig

Bæði Heiðrún og Konráð vonast til þess að samningur milli deiluaðila náist fljótlega.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .