Seðlabanki Íslands telur áhrif af úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu verði líklega neikvæð en óveruleg fyrir íslenskan þjóðarbúskap og fjármálamarkað.

Áhætta gagnvart breskum eignum takmörkuð

Birti bankinn minnisblað þess efnis í morgun sem hann sendi stjórnvöldum um hugsanleg áhrif af úrsögn Bretlands úr sambandinu. Sérstaklega telur bankinn áhrifin óveruleg til lengri tíma litið og undirstrikar hann að íslenskar fjármálastofnanir hafi góða eiginfjárstöðu, beri takmarkaða áhættu gagnvart eignum í breskum pundum og þær séu vel fjármagnaðar í erlendum gjaldmiðlum.

Jafnframt taka þeir fram að gjaldeyrisforðinn sé stærri en í mjög langan tíma í sögu þjóðarinnar og fjármagnshöft dragi úr sveiflum í fjármagnsflæði.

Smávægilegur samdráttur útflutnings

Telur bankinn áhrifin á Ísland helst koma fram í smávægilegum samdrætti í útflutningi sjávarafurða og aðsóknar ferðamanna, eða sem nemur 0,2%. Frá því á fyrri hluta tíunda áratugarins hefur vægi Bretlands í vöruútflutningi minnkað úr rúmlega 20% í tæplega 12% eða sem nemur fyrir 73 milljörðum króna. Þó er hlutfallið gagnvart sjávarvöruútflutningi 18,3% en þangað voru fluttar út vörur fyrir um 48,5 milljarð króna á síðasta ári.

Gengi pundsins hefur lækkað á fjármálamörkuðum í kjölfar fréttanna, en Seðlabankinn vísar í spár OECD um möguleg áhrif úrsagnar, þar sem þeir gera ráð fyrir því að pundið lækki um 10% gagnvart Bandaríkjadal um mitt árið áður en það styrkist nokkuð aftur.

Er gert ráð fyrir að það verði 6% lægra árið 2017 en það var til að byrja með og 4% lægra árið 2018. Lægra gengi hefði áhrif á að lægra verð en ella fengist fyrir íslenskan útflutning til Bretlands.