Gengi hlutabréfamarkaðarins getur gefið vísbendingar um gengi hagkerfisins 6-18 mánuði fram í tímann þar sem hlutabréfaverð byggir á væntingum um framtíðarhagnað fyrirtækja og þar með væntingum um gengi þeirra hagkerfa sem fyrirtækin starfi innan. Sé litið síðustu 20 ár aftur í tímann má sjá að breytingar á hlutabréfamarkaði til hækkunar eða lækkunar hafa oftar en ekki haft forspárgildi fyrir þróun hagsveiflunnar eitt til tvö ár þar á eftir.

Síðustu tvö ár hefur úrvalsvísitala Kauphallarinnar farið lækkandi eftir 41% hækkun árið 2015.

Snorri Jakobsson, forstöðumaður Capacent greininga, bendir hins vegar á tvo þætti óháð almennri stöðu efnahagsmála sem sé líklegir til að halda niðri verði skráðra hlutabréfa. „Lífeyrissjóðir eru að beina sjónum sínum í auknum mæli að erlendum mörkuðum eftir að þeir fengu fulla heimild til þess að fjárfesta erlendis með afnámi gjaldeyrishafta.“ Þá hafi fyrirhugað útboð Arion banka einnig áhrif en eigið fé Arion banka um síðustu áramót nam 225 milljörðum króna. „Þetta er eins og fimm stór félög í Kauphöllinni væru að koma á markað. Þannig að menn að sjá fram á gríðarlegt framboð af hlutabréfum.“

Elvar Ingi Möller, sérfræðingur hjá greiningardeild Arion banka, segir á að samkeppnin á smásölumarkaði hafi harðnað með innkomu fyrirtækja á borð við Costco sem hafi haft áhrif á nokkur félög í Kauphöllinni. Samdráttur var í hagnaði Skeljungs og N1 árið 2017. Á móti þessari þróun hefur hins vegar fjárfesting erlendra aðila í skráðum félögum aukist verulega. Fjárfesting þeirra í Kauphallarfélögunum nam nálægt 50 milljörðum króna á síðasta ári.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .