Í dag klukkan 16:00 lýkur almennu hlutafjárútboði Skeljungs, en þetta verður eina nýskráningin í Kauphöll Íslands á þessu ári að sögn Fréttablaðsins.

Eins og Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um er stefnt að skráningu þess á markað 9. desember næstkomandi, en félagið var áður á markaði á árunum 1994 til 2003 og verður félagið þá annað olíufélagið á markaðnum eftir skráningu á eftir N1.

Fagfjárfestar þurfa að kaupa fyrir 10 milljónir að lágmarki

Útboðið er skipt í A og B hluta, þar sem A hluti er fyrir kaup á bilinu 100 þúsund upp í tíu milljónir, en B hlutinn er ætlaður fagfjárfestum með lágmarkskaup fyrir 10 milljónir króna.

Í A hlutanum er verðbilið á bilinu 6,1 til 6,9 krónur á hlut, en til sölu er 23,3% af heildarhlutafé félagsins. Seljendurnir áskilja sér þó réttar til að stækka útboðið í 31,5% af heildarhlutafé.

Söluandvirði milli 3-4 milljarða

Miðað við lágmarksgengi yrði söluandvirðið þrír milljarðar ef 23,3% yrðu seld, en fjórir milljarðar ef allir 31,5% hlutirnir yrðu seldir.

„Mat sérfræðinga á markaði er að fagfjárfestar muni taka skráningunni opnum örmum. Langt er frá síðasta útboði og rými fyrir nýtt skráð félag í bókum fagfjárfesta,“ segir í frétt blaðsins.

„Þá séu þetta ekki háar fjárhæðir í samanburði við önnur félög á markaði, en markaðsvirði Skeljungs er á bilinu 13 til 14 milljarðar eftir því við hvaða verð í bilinu er miðað.“