Prófessor í alþjóðaviðskiptum við American University í Washingtonborg, Arturo Porzecanski, segir nýjustu tilraun íslenskra yfirvalda til að losna við fjármagnshöftin vera valkvætt greiðslufall á skuldbindingum landsins við erlenda kröfuhafa.

Gjaldeyrisútboð og útgönguskattur jafngilt greiðslufalli

Er hann þar að vísa í gjaldeyrisútboð Seðlabankans sem verður á morgun og samkvæmt yfirvöldum hér á landi jafnframt síðasta tækifærið áður en eigendur aflandskróna verði bundnir í vaxtalitlum reikningum með fjármagn sitt til margra ára.

Þetta kemur fram í grein í Financial Times , þar sem hann segir jafnframt að ríkisstjórnin hafi lagt mikið uppúr því að fela þetta yfirvofandi greiðslufall, svo það fari framhjá matsfyrirtækjum og fjárfestum. Segir hann matsfyrirtækin skuldbundin til að líta á alla skilyrtar breytingar á fjárhagsskuldbindingum sem greiðslufall, og falli útgönguskatturinn og bindisskyldan þar undir.

Hraðari efnahagsuppbygging en á Norðurlöndunum

Auk þess segir hann að efnahagur og fjármálastaða þjóðarbúsins hafi batnað svo mjög að erfitt sé að réttlæta lengur slíkar aðgerðir, heldur sé hér um að ræða skort á vilja, en ekki getu, til að borga.

Ísland hafi farið í gegnum hraðari efnahagsuppgang heldur en flest norðurlöndin og séu flestar hagtölur hagstæðari nú en fyrir hrun.