Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins á fjármálamarkaði gætir töluverðar óánægju meðal íslenskra fjárfesta vegna nýafstaðinnar skráningar Arion banka á hlutabréfamarkað á Íslandi og í Svíþjóð. Innlendir fjárfestar voru verulega skertir í útboðinu og eru dæmi um að einstaklingar og fagfjárfestar sem skráðu sig fyrir hundruðum milljóna fengu lítið sem ekkert í sinn hlut.

Enn sem komið er enginn viðskiptavaki með bréf Arion í íslensku kauphöllinni. Íslenskir fjárfestar sem hafa viljað kaupa bréf Arion hafa því gert það í sænsku kauphöllinni þar sem töluvert meiri velta er með bréf bankans. Samkvæmt heimildum blaðsins er um töluverðar upphæðir að ræða sem skipta hefur þurft í sænskar krónur. Hefur krónan veikst um 2,34% gagnvart evru og 1% gagnvart sænskri krónu frá því að bankinn fór á markað.