Upp úr sauð á fundi Kristínar Þorsteinsdóttur, útgefanda 365, Mikaels Torfasonar, fyrrverandi aðalritstjóra 365, og Ólafs Þ. Stephensen, fyrrverandi ritstjóra Fréttablaðsins á fimmtudag í síðustu viku vegna afskipta Kristínar af frétt á netmiðlinum Vísi sem þar birtist í síðustu viku. Í kjölfar fundarins var Mikael sagt upp störfum og Ólafur hætti í dag . Kristín tók í kjölfarið tímabundið við starfi Mikaels.

Vildi ekki frétt um sjónvarpskokk

Kristín Þorsteinsdóttir
Kristín Þorsteinsdóttir
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Málið snerist um frétt úr Fréttablaðinu sem birtist á miðvikudag um það að söngvarinn Geir Ólafs hafi boðið sjónvarpskokkinum Guðrúnu Veigu Guðmundsdóttur út að borða. Guðrún stýrir matreiðsluþættinum Nenni ekki að elda og er hann sýndur á sjónvarpsstöðinni iSTV. Fréttin birtist á Vísi.is eins og aðrar fréttir úr Fréttablaðinu og var hún á netmiðlinum fram að kvöldmatarleyti sama dag. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að Kristín hafi hins vegar fengið því framgengt að blaðamaður á Vísi.is tæki fréttina úr birtingu þar sem hún var talin fjalla á jákvæðan hátt um samkeppnisaðila 365. Fréttamenn tóku eftir því síðar um kvöldið að fréttin hafði verið fjarlægð og birtu hana aftur eina mínútu yfir miðnætti 20. ágúst, þ.e. aðfaranótt fimmtudags.

Þeir Mikael og Ólafur funduðu með Kristínu um málið á fimmtudag í síðustu viku til að ræða um málið en afskipti Kristínar af fréttaflutningi Vísis var talin brjóta í bága við ritstjórnarreglur 365.

Svona eru reglur 365

Í ritstjórnarreglum 365 segir orðrétt:

„Hagsmunir auglýsenda og/eða eigenda eru aldrei hafðir til hliðsjónar við vinnslu efnis. Til að almenningur þurfi aldrei að vera í vafa um hlutleysi umfjöllunar skal gera skýran greinarmun á auglýsingum og öðru efni.“

Þá segir ennfremur:

„Hlutverk fréttamiðla 365 er að upplýsa almenning. Ritstjórn þeirra er sjálfstæð og skal starf hennar taka mið af því að aldrei sé efast um trúverðugleika miðla 365. Ritstjórnarlegt sjálfstæði skal virt og skal ritstjórnarefni óháð stjórn og eigendum. Í veigamiklum málum skal hafa samráð við ábyrgðarmann miðlanna.“