Kristínu Þorsteinsdóttur, útgefanda 365, segir frétt sem hún lét taka úr birtingu á Vísi í síðustu viku á mörkum þess að vera auglýsing. „Það er ekkert launungarmál að mér finnst slíku efni hafa verið gert alltof hátt undir höfði undanfarin misseri, þótt það eigi á stundum vissulega rétt á sér,“ segir hún í yfirlýsingu sem hún hefur sent frá sér.

Fram kom á VB.is í gær að fréttin sem um ræðir hafi fjallað um það að söngvarinn Geir Ólafs bauð sjónvarpskokki sem stýrir þætti á sjónvarpsstöðinni iSTV út að borða. Fréttin birtist í Fréttablaðinu á miðvikudag og birtist hún eins og annað efni á Vísi.is. Kristín átti svo frumkvæðið að því að láta fjarlægja hana um kvöldmatarleytið af Vísi. Þegar Mikael Torfason, sem þá var aðalritstjóri 365, og Ólafur Stephensen, ritstjóri Fréttablaðsins, komust að því kölluðu þeir hana inn á teppið. Fundurinn mun hafa verið hávær. Í kjölfarið var Mikael sagt upp og tók Kristín tímabundið við starfi hans. Ólafur skrifaði harðorðan leiðara í Fréttablaðinu í gær þar sem hann áréttaði mikilvægi sjálfstæðra fréttastofa sem þyrftu að vera lausar við þrýsting eigenda. Ólafur hætti svo í gær og er Fréttablaðið án ritstjóra.

VB hefur margoft reynt að hafa samband við Kristínu vegna breytinganna á 365 í vikunni. Hún hefur engu svarað.

Yfirlýsing Kristínar

Kristín Þorsteinsdóttir
Kristín Þorsteinsdóttir
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Í yfirlýsingu Kristínar vísar hún skrifum Ólafs á bug. Hún skrifar:

„Fréttablaðið er blað allra landsmanna. Þar skiptast menn á skoðunum í aðsendum greinum og ritstjórnargreinum. Fréttastofa 365 er stærsta fréttastofa landsins. Hana á að efla, auka hlut kvenna og standa vörð um sjálfstæði blaða-og fréttamanna. Til þess var ég ráðin.

Ólafur Þ. Stephensen fyrrverandi ritstjóri Fréttablaðsins talar um í yfirlýsingu að ætlunin hafi verið að þrengja að sjálfstæði hans. Í leiðara hans á mánudaginn, er helst á honum að skilja að hann hafi ritstýrt Fréttablaðinu í fjögur og hálft ár undir eilífum þrýstingi vondra eigenda. Það er undarlegt að hann skuli hafa látið bjóða sér slíkt. Ef eitthvað væri hæft í orðum Ólafs þá hefði umræddur leiðari ekki litið dagsins ljós. Af skrifunum má ráða að sá sem trúir á draug, hann finnur draug.

Í þessu sambandi hefur verið rætt um dagskrárkynningu, sem undirrituð tók út af Vísi í síðustu viku. Í mínum huga var hún á mörkum þess að vera auglýsing.  Það er ekkert launungarmál að mér finnst slíku efni hafa verið gert alltof hátt undir höfði undanfarin misseri, þótt það eigi á stundum vissulega rétt á sér. Deilur um slíkt hafa átt sér stað á öllum fjölmiðlum, sem ég þekki til. Kynningin hafði fengið ítarlega umfjöllun í Fréttablaðinu þann dag. Þegar nákvæmlega sama efni birtist svo á Vísi, var ljóst að ekki hafði verið farið eftir stefnu útgefanda.

Í siðareglum 365 segir:

„Til að almenningur þurfi aldrei að vera í vafa um hlutleysi umfjöllunar skal gera skýran greinarmun á auglýsingum og öðru efni.”“