Útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækið Fisk Seafood ehf., sem er alfarið í eigu Kaupfélags Skagfirðinga, hagnaðist um 1.758 milljónir á rekstrarárinu frá september 2011 til ágúst 2012. Ársreikningur fyrir tímabilið var samþykktur af stjórn í desember síðastliðnum en honum var ekki skilað til ársreikningaskrár fyrr en í síðasta mánuði.

Aflaverðmæti skipa á tímabilinu nam um 6,6 milljörðum. Alls námu tekjur um 9,8 milljörðum og rekstrargjöld voru um 7,6 milljarðar.

Félagið er fjórði stærsti kvótaeigandi landsins. Stjórn þess lagði til að greiddur yrði út 20% arður af hagnaði til hluthafa. Það gera rúma 351 milljón króna.

Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri Kaupfélags Skagfirðinga, og Sigurjón R. Rafnsson aðstoðarkaupfélagsstjóri sitja í stjórn Fisk Seafood.