Stór útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki hafa risið og eru að rísa í austurhluta Rússlandi á tæpum tveimur áratugum á grunni þess fyrirkomulags sem haft er á úthlutunum á fiskveiðiheimildum í landinu. Úthlutunarkerfið hóf innreið sína árið 2004 og var þá kvóta úthlutað til fyrirtækja til fimm ára í senn. Stjórnvöld breyttu síðan úthlutunarreglunum á þann veg að kvóta skyldi vera úthlutað til tíu ára. Í næsta mánuði rennur kvótatímabilið út og verða þær breytingar 1. apríl næstkomandi að kvóta verður úthlutað til fimmtán ára.

Útgefinn heildarkvóti í öllum tegundum í Rússlandi er 4 milljónir tonna. Stjórnvöld hyggjast taka frá 20% af öllum kvótanum, eða um 800.000 tonn, og setja í sérstakan pott. Til samanburðar má nefna að botnfiskafli íslenskra skipa fiskveiðiárið 2016/2017 var 441.000 tonn.

Útgerðarfyrirtæki sem hyggja á nýsmíðar geta sótt um kvótaúthlutun úr þessum potti og 60% af honum, eða um 480.000 tonn, er ætlaður til slíkrar uppbyggingar. Landvinnslur eiga kost að sækja um 40% af pottinum, alls 320.000 tonn, sem ætluð eru til uppbyggingar vinnslunnar.

Eins og greint var frá í Fiskifréttum í síðustu viku skrifuðu Skaginn 3X í samstarfi við Frost og Rafeyri undir samning um uppsetningu á uppsjávarvinnslu fyrir rússneska útgerðar- og vinnslufyrirtækið Gidostroy á Kúril-eyjum með afkastagetu upp á 900 tonn á sólarhring. Það sem styður við uppbyggingu rússneska fyrirtækisins er fyrrnefndur kvótapottur.

60-70% til Austur-Rússlands

60-70% alls útgefins kvóta í Rússlandi er veiddur í Austur-Rússlandi. Þar til viðbótar hefur byggst upp sterkur stofn sardinellu sem mælist í miklu magni suður af Kamtsjatka skaganum. Þar eru leyfðar frjálsar veiðar. Ein leiðin til þess að gera verðmæti úr sardínustofninum er að reisa þar uppsjávarvinnslur. Það virðist því sem veruleg tækifæri séu framundan fyrir íslenskan tækniiðnað í Rússlandi til framtíðar.

Samkvæmt frétt í Undercurrent News frá því á síðasta ári skrifaði Dmitry Medvedev, forsætisráðherra Rússlands undir heimildir fyrir „fjárfestingarkvótann“ eins og potturinn er kallaður og hófust þá þegar að berast umsóknir um hann frá innlendum útgerðum og landvinnslum.

„Útgerðir í nýsmíðum í austurhéröðum Rússlands fá 20% meiri kvóta en útgerðir í Murmansk eða Arkangelsk í norðurhéröðum Rússlands sem láta smíða sambærileg skip,“ hafði Undercurrent eftir Ilya Vlasenko, talsmanni rússneska útgerðarfyrirtækisins RFC.

Tilgangurinn er sá að laða að meiri fjárfestingu í héraðinu þaðan sem tveir þriðju hlutar alls fiskiskipaflota Rússa er gerður út.

Uppbyggingin hafin á fullu

Áform um nýsmíði og uppsetningu á landvinnslu eru þegar komin á fulla ferð. Fiskifréttir hafa greint frá samningi Knarr Maritime um hönnun á heildarlausnum fyrir sex togara fyrir stærsta útgerðarfyrirtæki Rússlands, Norebo Group. Í því skyni hefur Nautic, sem leiðir hönnunarvinnuna, keypt ráðandi hlut í rússneskri verkfræðistofu í Pétursborg. Þá hófst smíði á 86×17 metra löngum togara fyrir útgerðarfélagið ATF í Arkhangelsk, sem eru hvað stærstir rússneskra útgerða í veiðum á þorski og ýsu. Skipið byggir á hönnun norska hönnunarfyrirtækisins Skipsteknisk og hefur útgerðarfyrirtækið pantað þrjú sams konar skip til viðbótar. Þau verða byggð í skipasmíðastöðinni í Vyborg, um 170 km norðvestur af Pétursborg.

Móðurfyrirtæki ATF, Norðvestlæga fiskveiðasamlagið, hefur samið við sömu skipasmíðastöð um smíði á sex krabbaveiðiskipum sem byggja einnig á hönnun frá Skipsteknisk.  Þá greindi Vyborg skipasmíðastöðin á síðasta ári frá samningi um smíði á tveimur togurum fyrir Atlantrybflot og LKT sem eru innan FOR samstæðunnar.

Skipin verða samkvæmt hönnun Skipsteknisk og verða ætluð til veiða í Barentshafi. Búist er við að fyrri togarinn verði afhentur 2022. Það er ljóst að mikið álag verður á skipasmíðastöðinni í Vyborg því hún hefur einnig samið við Nord Piligrim um smíði á tveimur 80,4 m löngum bolfisktogurum sem einnig byggjast á hönnun Skipsteknisk.