Hér á landi eru umsvif hins opinbera veruleg og sú þróun hefur verið jöfn og þétt undanfarna áratugi. Eftir fall bankanna jukust þau svo enn frekar, bæði beint og óbeint. Það átti ekki aðeins við um hefðbundin verkefni hins opinbera, því stór hluti atvinnulífsins komst undir opinbert forræði og fyrstu árin gerðist fátt án þess að það fengi blessun eða blikk úr stjórnarráðinu. Síðastliðin ár hefur það blessunarlega farið að ganga til baka, en enn er langt í land og menn eru fastheldnir á völd og áhrif, sérstaklega ef þeir bera ekki á þeim ábyrgð.

Þetta á ekki síður við um opinber fjármál, en þar eykur það vandann verulega að í þjóðmálaumræðu hefur nánast ríkt bannhelgi á fjármálastjórn hins opinbera. Það eru flókin mál, leiðinleg jafnvel, og vei þeim stjórnmálamanni, sem reynir að bera þau á borð í kosningabaráttu. Á hinn bóginn er hinum pólitíkusunum ávallt fagnað, sem þykjast geta komið færandi hendi með glaðninga til almennings og hafa náð fullu valdi á þeirri list að múta kjósendum með fjármunum þeirra sjálfra.

Meðal annars af þessum sökum hafa agaðri vinnubrögð í ríkisfjármálum skipt svo miklu máli. Það er hins vegar ekki nóg að vinnubrögðin séu betri, sjálf fjármálapólitíkin þarf að vera það líka. Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2018-2022 gerir þannig ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs verði 212 milljörðum króna hærri árið 2022 en gert er ráð fyrir að þau verði á þessu ári.

Ýmsum þætti meira en nóg um þá aukningu, en það á hreint ekki við um stjórnendur hjá ríkisvaldinu. Þvert á móti telur nær enginn þeirra núverandi fjárframlög duga. Öðru nær, því í umsögnum sínum til fjárlaganefndar telja þeir langflestir nauðsynlegt að fá meira úr að moða og sumir telja sig geta komið miklu, miklu meira í lóg.

Sé það rétt, að nauðsynlegt sé að auka útgjöldin svo verulega, blasir við að nýsamþykkt fjármálastefna er markleysa. Og þá er alls órædd uppsöfnuð þörf á innviðauppbyggingu, sem hleypur á hundruðum milljarða króna. Aukin ástæða er til þess að hafa áhyggjur af þessu vegna þess að undanfarinn áratug hefur töluverð valdatilfærsla orðið frá stjórnmálamönnum til embættismanna.

Ábyrgð þeirra gagnvart kjósendum og skattborgurum er hins vegar engin. Á sama tíma hafa þeir í auknum mæli beint orðum sínum til almennings til þess að skapa þrýsting á fjárveitingavaldið. Það er ekki til þess að bæta vinnubrögðin eða skerpa á stjórnsýslunni.

Þeir vilja nefnilega líka færa almenningi glaðninga, en það er sjaldnast nefnt í því samhengi að til þess þarf óhjákvæmilega að auka skattheimtu, gjaldtöku og/eða skuldir. Samkvæmt fyrrgreindri fjármálaáætlun munu skatttekjurnar aukast um þriðjung á tímabilinu. Og samt telur embættismannavaldið sig þurfa meira, miklu meira!

Heldur einhver að almenningur og atvinnulíf sé aflögufært í þeim mæli? Hér hefur vissulega verið mikið uppgangstímabil á undanförnum árum, en flest bendir til þess að tindi þess hafi þegar verið náð. Ætla mætti að Íslendingar hefðu lært þá lexíu árið 2008 að ekki er skynsamlegt að ganga út frá því að veislan taki aldrei enda og að ekki sé heppilegt að miða útgjöld við það að aldrei komi aftur niðursveifla.

Á uppgangstímum er mun mikilvægara að greiða niður skuldir og halda aftur af útgjaldafýsn stjórnmála- og embættismanna, því reynslan sýnir okkur líka að þegar áföllin skella á þá er mikilvægt að hafa borð fyrir báru.