Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem lagt verður fram á fimmtudaginn er gert ráð fyrir allt að fimmtán milljarða auknum útgjöldum í heilbrigðis- og menntakerfið að því er Fréttablaðið greinir frá.

Er þá miðað við til viðbótar við það sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi síðustu ríkisstjórnar fyrir næsta ár, sem lagt var fram tveimur dögum áður en ríkisstjórnin féll. Einnig verður sett aukið fjármagn í löggæsluna og til að bæta þjónustu víða um landið í kynferðisafbrotamálum.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir peningana fara í opinberu heilbrigðisþjónustuna, Landspítalann, heilsugæsluna og almennar sjúkrastofnanir hringinn í í kringum landið.

„Þessi hluti af almannaþjónustunni hefur þurft að bíða allt of lengi og fólk hefur þurft að hlaupa hraðar og gera meira í allri heilbrigðisþjónustunni allt frá hruni og í rauninni lengur,“ segir Svandís sem hyggst leita eftir samvinnu við Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra.

„Það má ekki gleyma því að Landspítalinn er háskólasjúkrahús þannig að þetta er menntastofnun líka og við þurfum að búa vel að vísindastarfi og rannsóknum.“

Lilja segir stóraukna áherslu verða í menntamálum í komandi fjárlagafrumvarpi. „Áherslan verður á háskólastigið, framhaldsskólastigið, verk- og iðnnám,“ segir Lilja. „Þessi ríkisstjórn ætlar sér að skapa hagkerfi sem er drifið áfram af verk- og hugviti.“