Samtökin Vote Leave – opinber samtök útgöngusinna í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, sem haldin var 23. júní 2016 – brutu kosningalög samkvæmt úrskurði kjörnefndar Bretlands, sem sér um að framfylgja kosningalögum.

Brotið fólst í að veita fé í gegn um ungliðasamtökin BeLeave, og fara þannig yfir hámarksfjárhæð sem hvor hliðin um sig mátti eyða í kosningarnar, 7 milljón pundum, eða rétt um milljarði íslenskra króna.

Vote Leave eyddu tæplega 2,7 milljón pundum af sínum 7 í þjónustu frá Kanadíska fyrirtækinu Aggregate IQ, en auk þess keyptu BeLeave þjónustu af þeim fyrir um 675 þúsund pund, sem fengin voru frá Vote Leave. Hámarksupphæð sem BeLeave máttu eyða sem óskráð baráttusamtök var 10 þúsund pund.

Nefndin sagði samtökin hafa streist á móti rannsókninni, dregið lögmæti hennar í efa, og almennt verið einstaklega ósamvinnuþýð. Nefndinni hafi þó að lokum tekist að afla þeirra gagna sem hún þurfti, sem séu afgerandi.

Nefndin sektaði Vote Leave um 61 þúsund pund, og Darren Grimes, stofnanda BeLeave, um 20 þúsund pund, og vísaði málinu auk þess til lögreglu.

Útgöngusamtökin Leave.EU höfðu áður verið sektuð um 70 þúsund pund í mars á þessu ári fyrir að gefa ekki upp „að minnsta kosti“ 77 þúsund pund af útgjöldum.

Nánar má lesa um málið í umfjöllun BBC .