Áformað er að byggja tvö hús á lóð undir gagnaver á Blönduósi á næstunni en fyrra húsið verður um 640 fermetrar en hið seinna um 580 fermetrar. Umsókn einkahlutafélagsins Borealis Data Center um lóð undir gagnaverið var tekin til afgreiðslu á fundi byggðaráðs Blönduósbæjar á fimmtudaginn síðastliðinn.

Feykir.is greinir frá þessu en þar segir einnig að áætlað sé að fleiri hús verði byggð á lóðunum á næstu árum.

Í júní á síðasta ári áttu fulltrúar frá Borealis Data Center fund með sveitarstjórn Blönduósbæjar en fyrirtækið var á höttunum eftir hentugri staðsetningu fyrir gagnaver þar sem landrými er nægt og aðgengi að raforku gott.  Blönduós hefur verið talinn ákjósanlegur staður fyrir gagnaver og hefur 270 hektara land verið tekið frá í aðalskipulagi fyrir þess konar starfsemi. Nálægðin við Blönduvirkjun er talinn mikill kostur, öruggur orkuflutningur og um skamman veg að fara. Samgöngur eru greiðar og ennfremur er svæðið ákjósanlegt vegna lítillar hættu á náttúruvá, s.s. jarðskjálftum, eldgosum, snjóflóðum og skriðuföllum.

Byggðaráð  samþykkti að úthluta Borealis Data Center ehf. umræddum lóðum með tilteknum fyrirvörum.