Í byrjun nóvember mun útivistarverslunin Útilíf sem lengi hefur verið til húsa í Glæsibæ loka verslun sinni þar og flytja starfsemi hennar í Smáralind þar sem fyrirtækið hefur þegar aðra verslun til húsa.

Í leiðinni flyst starfsemi Útilífs í Smáralind í 1.200 fermetra húsnæði í verslunarmiðstöðinni sem verður við nýja göngugötu í austurenda Smáralindar.

Mismunandi áherslur verslananna renna saman

„Þar renna saman í eina heild tvær mismunandi áherslur tveggja verslana; verslunarinnar í Smáralind sem hefur lagt mikla áherslu á skó og sport og svo verslunarinnar í Glæsibæ en hún hefur verið leiðandi í þjónustu og sölu á útivistar- og skíðavörum um áratugaskeið,“ segir í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.

„Engar uppsagnir á starfsfólki í fullu starfi eru fyrirhugaðar vegna þessara breytinga. Eftir þessar skipulagsbreytingar rekur Útilíf tvær verslanir, í Kringlunni og Smáralind.“

Skíðaversktæði, tæki og tól flytja

Hörður Magnússon, rekstrarstjóri Útilífs segir að rýmri opnunartími verði á nýja staðnum og að þar verði boðið upp á enn þéttara vöruúrval og betri þjónustu í nýju versluninni.

„Sú þjónusta sem við höfum veitt í Glæsibæ, eins og útivistar- og skíðadeildin okkar, flytur í heilu lagi með skíðaverkstæði, tækjum, tólum og starfsfólki í Smáralind,“ segir Hörður meðal annars í fréttatilkynningu.