Ekki má útiloka að brögðum hafi verið beitt á markaði með olíu með svipuðum hætti og millibankavexti. Þetta er fullyrt í breska dagblaðinu Telegraph í dag og bent á að rannsóknin á vaxtabraskinu innan Barclays-banka í Bretlandi hafi leitt í ljós hugsanlega misnotkun með olíuverð. Blaðið segir breska þingmenn krefjast þess að málið verði rannsakað.

Norski netmðillinn 324 hefur eftir Thina Saltvedt, greinanda á sviði olíumála hjá Nordea-banka, að ekki sé hægt að útiloka misnotkun á olíumarkaði sem hafi skilað sér í skakkri verðlagningu. Hún bendir hins vegar á að þótt stjórnmálamenn krefjist rannsóknar á málum sem þessum þá sé allt eins ólíklegt að nokkuð finnist. Þeir vilji engu að síður finna sökudólg, þ.e.a.s. þann sem er ábyrgur fyrir því að eldsneytisverð hafi hækkað.

Hún dregur í efa að olíufélögin hafi sammælst um misnotkun á olíumarkaði. Það gæti reynst þeim skeinuhætt og yrði ansi mikil áhætta.

„Við teljum því ólíklegt að það hafi átt sér stað,“ segir hún en bendir á að með hliðsjón af vaxtabraskinu megi aldrei útiloka neitt.