Kaffitár hafa ráðið Andreu Róbertsdóttur til að stýra kaffihúsum keðjunnar, en hún hefur meðal annars starfað sem mannauðsstjóri hjá RÚV og forstöðumaður hjá fjarskiptafyrirtækinu Tal.

„Staða framkvæmdastjóra er sprelllifandi starf og verkefnin eru fjölbreytt. Að fá að vera á hreyfingu og vinna með góðu fólki að metnaðarfullum markmiðum hentar mér einstaklega vel. Það er þessi frumkvöðlafílingur og ástríða sem hefur alltaf heillað mig og viðskiptahættir að mínu skapi frá baun í bolla,“ segir Andrea en síðan hún hætti hjá RÚV hefur hún klárað MA diplóma í jákvæðri sálfræði við HÍ.

„Í mínum störfum hef ég í raun alltaf verið að nýta mér grunnatriði jákvæðu sálfræðinnar. Það er jákvæð forysta og jákvætt inngrip og heilsuefling, og mig langaði að kafa aðeins betur og nánar í þau fræði. Það er hvernig við getum haft jákvæð áhrif á stemningu á vinnustöðum með hvernig við leiðum hópa og nálgumst verkefnin. Þetta snýst samt ekki um að vera alltaf glaður, heldur akkúrat um að gangast við tilfinningum sínum og átta sig á hvernig við getum haft mikil áhrif á eigin líðan og viðhorf til lífsins.“

Andrea er í sambúð með Jóni Þór Eyþórssyni og saman eiga þau tvo drengi sem verða sjö og tíu ára síðar á árinu. „Strákarnir eru skólastjórarnir í mínu lífi og mínir helstu kennarar,“ segir Andrea sem segir sín helstu áhugamál vera útivist, tónlist, myndlist og samvera með vinum og fjölskyldu.

„Útivist er geggjuð og frábær hugleiðsla, hvort sem það eru vinsælar gönguleiðir eins og Hvannadalshnúkur, Laugavegurinn, Fimmvörðuháls eða bara göngutúr upp í Heiðmörk. Að anda djúpt og horfa út fyrir göngustíginn, þá er maður að fá svo mikið úr þessu og er þetta er nauðsynlegt til þess einhvern veginn að safna sér saman. Síðan hef ég tekið labbandi fundi, sem mér hefur fundist gefa rosalega góða raun.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .