*

þriðjudagur, 12. desember 2017
Innlent 7. desember 2017 19:28

Útlánatöp verða reiknuð fram í tímann

Nýr reikningsskilastaðall verður innleiddur um áramótin en hann mun hafa áhrif á eigin fé bankanna.

Ritstjórn

Um áramótin verður innleiddur nýr reikningsskilastaðall, IFRS 9, sem mun breyta því hvernig afskriftir á útlánum eru færðar til bókar. Það mun svo hafa einhver áhrif á eiginfjárstöðu íslensku bankanna.

„Það verða einhver áhrif. Það er í rauninni verið að færa staðalinn úr því að útlánatöp séu bara færð þegar þau eru orðin yfir í það að færa þau strax sem vænt útlánatap. Þannig að þú þarft að færa af varúð vegna útlána, eða ef vísbendingar í hagkerfinu benda til þess að það sé þörf á því,“ segir Hreiðar Bjarnason, framkvæmdastjóri Fjármála Landsbankans, en hann segir jafnframt að ekki sé hægt að gefa upp hversu mikil áhrif sé áætlað að breyttur staðall hafi í för með sér en bankarnir muni birta það í ársuppgjöri.

Jón Þór Sturluson, aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins, segir að nýr staðall muni hafa í för með sér viðbótar varúðarfærslu við næsta ársuppgjör. „Það er þá væntanlega sérstök leiðrétting á eiginfjárútreikningi en ekki fært til rekstrar. Við sjáum ekki fyrir okkur eitthvert áfall eða stór áhrif af þess við gildistökuna. En auðvitað er þetta stór breyting og jákvæð að langmestu leyti,“ segir Jón Þór

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.