Ekki liggja fyrir tölur um raunávöxtun, tryggingafræðilega stöðu, iðgjöld eða lífeyrisgreiðslur lífeyrissjóð­ anna árið 2016. Þó má ætla að raunávöxtun þeirra hafi að jafnaði verið lítil og jafnvel neikvæð á síðasta ári, en t.a.m. var raun­ ávöxtun Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, stærsta lífeyrissjóðs landsins, neikvæð um 1,2%.

Styrking krónunnar hafði áhrif

Styrking krónunnar setti væntanlega svip sinn á afkomu lífeyrissjóðanna á síðasta ári, en styrking krónunnar lækkar virði erlendra eigna. MSCI heimsvísitalan fyrir hlutabréf hækkaði um 5,3% á árinu, en á móti styrktist krónan um 15,6% miðað við gengisvísitölu Seðlabankans. Væntanlega hefur það dregið ávöxtunina talsvert niður. Þar að auki var ávöxtun á innlendum hlutabréfamarkaði takmörkuð. T.a.m. hækkaði hlutabréfavísitala GAMMA aðeins um 0,1%. Aftur á móti hefur skuldabréfaeign sjóðanna væntanlega gefið betur af sér, en skuldabréfavísitala kauphallarinnar hækkaði um 6,2%. Stór hluti skuldabréfanna er þó bókfærður á kaupkröfu, sem skilar fastri ávöxtun ár hvert.

Undanþáguheimild lífeyrissjóðanna til erlendra verðbréfakaupa á síðasta ári nam 85 millj­örðum króna. Sjóðirnir juku eignir sínar erlendis í krónum talið til að dreifa áhættu, en fullnýttu þó ekki heimildina. Þar spiluðu inn í áhrifaþættir á borð við góð innlend fjárfestingartækifæri (t.d. í skuldabréfum og útlánum), gengissveiflur og erlendar markaðsaðstæður, n.t.t. sögulega lágir vextir, þensla á eignamörkuðum og pólitísk óvissa.

0,3% raunávöxtun?

Greining Íslandsbanka telur að út frá sögulegri þróun, sem og þróun fólksfjölda og launavísitölu, megi lauslega áætla að iðgjöld umfram lífeyrisgreiðslur á síðasta ári hafi numið á bilinu 50-55 milljörðum króna, en árið þar á undan voru þau 33 milljarðar. Með hliðsjón af framlagi ríkissjóðs til LSR áætlar greiningardeildin að nafnávöxtun lífeyrissjóðanna í heild hafi verið um 2%, og að teknu tilliti til verðbólgu hafi raunávöxtun kerfisins í heild verið „sáralítil“ á síðasta ári – um 0,3% miðað við 1,7% meðalverðbólgu árið 2016.

Ekki er þó ástæða til að örvænta um stöðu sjóðanna í bili. Raunávöxtun undanfarin fimm ár hefur verið að jafnaði yfir 3,5% tryggingafræðilegu raunávöxtunarviðmiði sjóðanna, sem ætti að milda magra afkomu síðasta árs. Þar að auki eru lífeyrissjóðirnir langtímafjárfestar og undanfarin 20 ár hefur lífeyrissjóðakerfið mætt þeim ávöxtunarkröfum sem til þess eru gerðar. Raunávöxtun áranna 1997-2015 var að meðaltali 4,2% hjá samtryggingardeildum en 3,1% hjá séreignardeildum lífeyrissjóða.

Tryggingafræðileg staða lífeyrissjóðakerfisins í heild hefur farið batnandi frá árinu 2009. Í árslok 2015 var tryggingafræðileg staða sjóða án bakábyrgðar ríkis og sveitarfélaga jákvæð um 3,2% borið saman við 0,1% árið áður, en milli 2009 og 2013 var hún neikvæð. Staða almenna lífeyriskerfisins er því nokkuð traust. Sömu sögu er þó ekki hægt að segja af tryggingafræðilegri stöðu lífeyrissjóða með bakábyrgð, en hún var neikvæð um 38% árið 2015.

Nánar er fjallað um málið í sérblaði Viðskiptablaðsins, Lífeyrir & tryggingar . Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .