Útlit er fyrir að októbermánuður verði sá versti fyrir hlutabréfaverð tæknifyrirtækja í Bandaríkjunum síðan í fjármálakrísunni fyrir áratug, samkvæmt frétt Financial Times .

Amazon og Google, tvö af 5 stærstu tæknifyrirtækjunum – sem saman eru oft kölluð FAANG (Facebook, Amazon, Apple, Netflix, Google), og hafa leitt hækkanir síðustu ára – hafa lækkað mikið í dag.

Amazon féll um tæp 10% eftir neikvæða afkomuviðvörun fyrir komandi jólavertíð, sem skiptir sköpum í smá- og netsölugeiranum.

Alphabet, móðurfélag Google, féll um 5%, eftir lakari frammistöðu auglýsingadeildar netrisans en búist hafði verið við á þriðja ársfjórðungi, en auglýsingasala er undirstaða starfsemi félagsins.