Í færslu sem Höskuldur Þórhallsson þingmaður Framsóknarflokksins, telur hann bréf formannsins sem valdið hafa efasemdum um hvort kosningar verði haldnar í haust, vera forsætisráðherra vera mjög á móti skapi.

Forsætisráðuneyti sem skilyrði fyrir kosningum

Hann hafi sagst vera vanur að standa við orð sín, en samkomulag Framsóknarflokksins við Sjálfstæðismenn byggir á því að í stað þess að Framsókn haldi forsætisráðherrastólnum verði kosið í haust.

Segir hann að útspil flokksins einungis til þess fallið að koma í veg fyrir þá mikilvægu vinnu sem framundan sé í þinginu og setja þar allt í upplausn.

Hér er færsla Höskuldar í heild sinni:

„Í kjölfar bréfs formanns Framsóknarflokksins til félagsmanna hafa á ný kviknað efasemdir um það hvort kosningar verði haldnar í haust eða ekki. Í kjölfar Panamaskjalanna þar sem upplýst var um spillingu, leynd, skattsvik fjölmargra einstaklinga, sagði þáverandi forsætisráðherra af sér.

Í kjölfarið samþykkti þingflokkur Framsóknarflokksins það skilyrði Sjálfstæðismanna að kosningar yrðu haldnar í haust gegn því að Sjálfstæðisflokkurinn féllist á að Framsóknarflokkurinn skipaði áfram forsætisráðherra úr sínum röðum. Á það féllst Sjálfstæðisflokkurinn og Sigurður Ingi Jóhannsson tók við af formanni flokksins.

Þetta skilyrði setti þingflokkur Framsóknarmanna ekki síst til að tryggja að unnt væri að halda áfram vinnu við og klára mikilvæg mál á borð við húsnæðisfrumvörp, afnám hafta, mikilvægar samgöngubætur auk fleiri mála sem listuð voru upp í samkomulaginu.

Þingflokkur Framsóknarflokksins hefur unnið í samræmi við þetta samkomulag þrátt fyrir að mér og mörgum finnist það súrt í broti að ekki verði hægt að ljúka ýmsum öðrum málum sem við teljum einnig mikilvæg. En ég lít svo á að ekki komi annað til greina en að standa við það samkomulag sem gert var.

Ég er ekki einn um þá skoðun í þingflokknum - og bendi m.a. á orð Sigurðar Inga Jóhannssonar forsætisráðherra, sem sagði í tilefni þeirrar atburðarásar sem formaðurinn hefur hrundið af stað, að hann væri „vanur því að standa við orð sín“. Ég dreg þá ályktun að nýjasta atburðarásin sé forsætisráðherra mjög að móti skapi.

Nýjasta útspil formanns flokksins er að mínu mati til þess eins fallið að koma í veg fyrir þá mikilvægu vinnu sem framundan er í þinginu og setja þar allt í upplausn. Slíkt myndi einnig sprengja ríkisstjórnina og þar með færu mörg mál í súginn.

Á meðan nákvæm dagsetning kjördags liggur ekki fyrir mun áfram ríkja óvissa um það hvort flokkarnir eigi að halda flokksþing og raða fólki á lista þó að flestir séu vel á veg komnir með þá vinnu. Það er þó ekki ástæða til að efast um að næstu þingkosningar fari fram í vetrarbyrjun þótt enn sé óljóst með nákvæma dagsetningu.“