„Gærdagurinn var góður enda var ágætis veiði í góðu veðri. Í dag höfum við aðallega verið í blindbyl og brælu og veiðin hefur ekki verið neitt sérstök. Það er einhver vindstrengur hér á slóðinni sem hefur fylgt okkur. Ég var að tala við einn skipstjóra sem er með skip að veiðum nokkuð norðan við okkur og hjá honum er búin að vera blíða í allan dag.“

Þetta sagði Albert Sveinsson, skipstjóri á Víkingi AK, er heimasíða HB Granda náði tali af honum í gær en þá var verið að ljúka við síðasta hol veiðiferðarinnar. Víkingur var þá um 90 sjómílur út af Vopnafirði og skipið átti því að vera komið til hafnar á Vopnafirði fyrir miðnætti.

Að sögn Alberts er þetta önnur veiðiferðin á loðnumiðin austur af Langanesi á nýhöfnu ári og hann segir að loðnan virðist vera stór og ætti að henta til frystingar til manneldis að því gefnu að engin áta sé í henni.

„Við höfum séð stikkprufur hér um borð sem sýna allt niður í 31 stykki í kílóinu en við höfum líka séð 37 stykki og 45 stykki í kílóinu. Mér skilst að það hafi eitthvað verið fryst af afla Venusar NS sem kom aftur á miðin í gær og til standi að reyna frystingu á hluta þess afla sem við erum með. Það fer þó allt eftir því hvort áta er í loðnunni eða ekki,“ segir Albert í viðtalinu.