Talsverð velta hefur var á skuldabréfamarkaði og þá sér í lagi með óverðtryggð skuldabréf. 21,9 milljarða króna velta var á skuldabréfamarkaði í dag. Agnar Tómas Möller, framkvæmdastjóri sjóða hjá GAMMA, segir í samtali við Viðskiptablaðið að markaðurinn hafi brugðist við yfirlýsingu peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands á neikvæðan hátt en á jákvæðan hátt við fundi Seðlabankans, sem gaf auknar vonir um vaxtalækkun þegar fram líða stundir.

„Það voru allar forsendur fyrir Seðlabankann að lækka vexti, í ljósi þess að gengið hefur styrkst talsvert umfram gengisspá Seðlabankans sem þýðir að óbreyttu að verðbólguspá Seðlabankans næsta árið ætti að liggja langt undir verðbólgumarkmiði. Seðlabankanum ber einfaldlega að bregðast við því, stefni í það að verðbólga fari langt undir markamið. Þrátt fyrir að Seðlabankinn hafi nefnt sterkan hagvöxt sem ástæðu fyrir óbreyttum vöxtum, bendir fátt til að góður gangur í hagkerfinu sé að leiða til verðbólgu. Þvert á móti er einkaneysla sem hlutfall af landsframleiðslu í lágmarki frá því stuttu eftir stríðslok, lánveitingar eru að dragast saman sem og vöxtur kortaveltu, svo fátt eitt sé nefnt, segir Agnar.

Tíðindalítil yfirlýsing

„Peningastefnunefndin gaf hins vegar út yfirlýsingu í morgun sem var frekar tíðindalítil og fátt í henni sem benti til að vextir gætu lækkað horft fram á veginn. Fyrstu viðbrögðin á markaðnum voru þau að öll skuldabréf voru seld og þá sérstaklega óverðtryggð bréf.

Agnar segir að að viðbrögðin hafi orðið önnur eftir að fundur peningastefnunefndar hófst. „Á fundinum kom fram að einhverju leyti að peningastefnunefnd er að bíða eftir nýrri hagspá við útgáfu Peningamála í maí næstkomandi. Ef krónan mun ekki veikjast nokkuð fram að því, ætti verðbólguspá bankans, ef allt er eðlilegt, að vera talsvert undir verðbólgumarkmiði og peningastefnunefnd getur ekki brugðist við því með öðrum hætti en að lækka vexti.

Það var einnig ýmislegt annað í máli Seðlabankans sem að markaðurinn las jákvætt. Eftir því sem að verðbólga og verðbólguvæntingar eru stöðugri og undir markmiði,  mun það stuðla að lægra nafn- og raunvaxtastigi horft fram á veginn,  að mati Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra,“ bætir hann við.

Magnaði upp veltuna

Agnar segir að aukin velta skýrist af því að væntingar breyttust talsvert innan dags. „Fyrst tók markaðurinn yfirlýsingu peningastefnunefndar illa en skilaboðin á fundi í Seðlabankanum þar sem vaxtaákvörðunin var skýrð, voru mun jákvæðari. Markaðurinn reiknar því með að vextir lækki horft fram á veginn enda allar líkur á að krónan haldi áfram að styrkjast og að verðbólga og verðbólguvæntingar verði langt undir markmiði, sem fyrr. Þetta magnaði upp veltuna,“ segir Agnar að lokum.