Valdaránstilraun í Tyrklandi, sem framkvæmd var af hluta hersins, virðist vera farin út um þúfur og ríkisstjórn landsins komin aftur til valda. Þó eru átök enn í gangi, á einangruðum stöðum.

Létust að minnsta kosti 90 manns í átökunum og hafa um 1.500 hermenn og aðrir sakaðir um þátttöku í valdaráninu verið handteknir.

Segir uppreisn gjöf frá Guði

Lýsti forsetinn, Recep Tayyip Erdogan, því yfir að valdaránstilraunin hefði misheppnast. Sagði hann þetta jafnframt gott tækifæri til að hreinsa til í hernum, en forsetinn hefur lengi átt í valdabaráttu við öfl í stjórnkerfinu sem staðið hafa gegn honum.

Eru það þá annars vegar þeir sem líta á sig sem varðmenn aðskilnaðar veraldlegs og andlegs valds í landinu sem saka forsetann um að auka áhrif Íslam í landinu, og hins vegar fylgismenn íslamska leiðtogans Fethullah Güllen, sem áður voru bandamenn forsetans.

,,Þessi uppreisn er gjöf frá Guði, því að þökk sé henni getum við hreinsað herinn af svikurum," sagði forsetinn í sjónvarpsávarpi en hann hefur sakað hreyfingu Güllen um að hafa staðið fyrir valdaráninu.

Güllen og hreyfing hans Hizmet sem rekur fjöldamarga skóla, hjálparstofnanir og sjúkrahús í landinu hafa neitað þátttöku í valdaránstilrauninni. Sagði í yfirlýsingu hreyfingarinnar að í meira en 40 ár hefði hreyfingin og leiðtogi hennar mælt fyrir um og sýnt stuðning sinn við frið og lýðræði. Fordæmir hreyfingin öll afskipti hersins af stjórnmálum landsins.

Fyrrum bandamaður forsetans

Fethullah Güllen hefur verið í útlegð í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum árum saman. Sakar forsetinn hreyfinguna um að hafa staðið fyrir spillingarásökunum gegn forsetanum, syni hans og stjórnarflokknum sem kennir sig við Réttlæti og framþróun (AKP) árið 2013, en fyrir það var hreyfingin álitin bandamaður Erdogans.

Erfitt er að henda reiður á hve mikinn stuðning hreyfing hans hefur, en stjórnskipulag hreyfingarinnar er ekki niðurnjörvað og fastmótað, heldur byggir meira á mörgum sjálfstæðum einingum. Á sama tíma er hreyfingin þó ásökuð um að starfa eins og sértrúarsöfnuður sem hlýði leiðtoga sínum í blindni en talið er að um 10% þjóðarinnar séu fylgismenn hennar.

Nafn hreyfingarinnar þýðir þjónusta en hann kennir að samfélag múslima hafi skyldu til að þjónusta almannahag, hvort tveggja samfélags múslima, tyrknesku þjóðarinnar allrar og til múslima og annarra út um allan heim.

Sagði fylgismönnum að koma sér fyrir í stjórnkerfinu

Güllen flúði til Bandaríkjanna árið 1999 þegar stefndi í að réttað yrði yfir honum vegna upptöku þar sem hann heyrst segja fylgismönnum sínum að þeir ættu,,að starfa innan stjórnkerfisins, læra inná það og reyna að breyta því innanfrá til að endurreisa þjóðina í nafni Íslam. Þó ættu þeir að býða þangað til aðstæður séu þeim meira í hag, þeir mættu ekki upplýsa um sjálfa sig of snemma."

Segir hann orð sín hafa verið tekin úr samhengi. Jafnframt hefur Güllen lýst yfir stuðningi við samtal milli trúarbragða, við fjölflokka lýðræði og að hann trúi á vísindin. Tyrknesk stjórnvöld hafa löngum sakað hann um að standa að baki vopnuðum hryðjuverkasamtökum og gáfu út handtökuskipun gegn honum í desember 2014 í kjölfarið á því að 20 blaðamenn voru handteknir.