Í næstu viku hleypur Valdimar Ármann, framkvæmdastjóri sjóða hjá GAMMA, heilt maraþon í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka. Valdimar hleypur til styrktar Barnaspítalasjóði Hringsins. Sjóðurinn hefur safnað tæpri milljón í gegnum áheitasíðu Reykjavíkumaraþons en markmið Hringsins er að vinna að líknar- og mannúðarmálum í þágu barna.

Þetta er í fyrsta sinn sem Valdimar hleypur heilt maraþon og hafa æfingar gengið vel.  „Ég hljóp hálft maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu árið 2009 og svo aftur árið 2012 með eiginkonu minni. Fannst núna kominn tími til að takast á við meiri áskorun og ákvað að skrá mig í heilt maraþon. Æfingar hafa gengið vel, byrjaði síðla vetrar að koma mér í hlaupaform og fór svo að lengja þetta skv. æfingaáætlun en getur reynst erfitt að fylgja því nákvæmlega yfir sumarfrí með hressa krakka sem þarf að sinna,“ segir Valdimar.

Hann segist hafa valið Hringinn vegna þess að strákurinn hans þurfti nýlega að fara í aðgerð og þar hafi hann dvalið með honum í nokkra sólarhringa. „Ég sá þá eigin augum mikilvægi þess að hlúð sé vel að börnum sem þurfa að dvelja þarna, oft langdvölum, ásamt því að aðstaða sé góð fyrir foreldra sem vaka og sofa þarna yfir börnunum sínum.“

Hægt er að styrkja Valdimar með því að smella hér .