Dr. Valdimar Sigurðsson hefur fengið framgang í stöðu prófessors við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá HR. Valdimar hefur kennt og stundað rannsóknir við viðskiptadeild HR frá árinu 2007, stýrt faglegri skipulagningu á kennslu markaðsmála og rannsókna við deildina og kennt á öllum stigum náms, frá grunnnámi til doktorsnáms, sem og leiðbeint stjórnendum fyrirtækja. Hann var nýlega skipaður forstöðumaður Rannsóknarseturs HR í markaðsfræði og neytendasálfræði.

Rannsóknir Valdimars hafa beinst að neytendahegðun á netinu og í verslunarumhverfi. Hann hefur birt um 30 fræðigreinar í  fræðiritum og bókarköflum auk  fjölda greina í ráðstefnuritum. Hann situr í ritstjórn The Psychological Record , hefur ritrýnt fyrir mörg erlend vísindarit og fengið fjölda rannsóknarstyrkja frá samkeppnissjóðum og fyrirtækjum.

Valdimar lauk doktorsprófi í markaðsfræði með áherslu á neytendasálfræði frá viðskiptadeild Cardiff háskóla í Bretlandi árið 2008. Árið 2005 lauk hann MSc í viðskiptafræði með áherslu á markaðsfræði og alþjóðaviðskipti frá Háskóla Íslands og Aarhus University og BA gráðu í sálfræði, með viðskiptafræði sem aukagrein, frá HÍ árið 2003.