Ísbúðin Valdís mun á næstunni opna tvær nýjar ísbúðir á landsbyggðinni, en þær verða á Akureyri og Hvolsvelli. Anna Svava Knútsdóttir, sem er eigandi Valdísar ásamt sambýlismanni sínum, Gylfa Þór Valdimarssyni, segir að þau séu mjög spennt fyrir því að sjá hvernig þessar nýju ísbúðir muni ganga.

„Við stöndum í raun og veru ekki beint að þessum opnunum, heldur eru það aðilar sem við höfum gert sérleyfissamninga við. Við hjálpum þeim þó við starfsemina og kennum þeim meðal annars að búa til ísinn.  Ísbúðirnar verða því alveg eins og þær sem við rekum hér í Reykjavík. Við erum mjög spennt fyrir að sjá hvernig starfsemin mun koma til með að ganga á Akureyri og Hvolsvelli.“ Anna Svava á von á því að ísbúðirnar muni opna mjög fljótlega.

Ný Valdísar ísbúð í miðbæ Reykjavíkur gengur vel

Fyrr í sumar opnaði Valdís nýja ísbúð í miðbæ Reykjavíkur. Að sögn Önnu Svövu hefur reksturinn þar farið vel af stað. „Nýja útibúið á Frakkastíg gengur vel. Kúnnahópurinn þar er svolítið öðruvísi en kúnnahópurinn í útibúinu úti á Granda. Í miðbænum er meira um ferðamenn á meðan Íslendingar vilja frekar keyra og leita því meira í útibúið úti á Granda. Auk þess að selja ís, seljum við heitar belgískar vöfflur og kaffi á Frakkastígnum, sem er nýjung hjá okkur. Salan þar hefur vaxið hægt og bítandi og gengur núorðið ágætlega,“ segir Anna Svava.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð . Aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Vænn hagnaður kaffihúss við Gullfoss
  • Breytt neyslumynstur ferðamanna hér á landi
  • Umfjöllun um verðþróun á íslenska sumarhúsamarkaðnum
  • Ítarlegt viðtal við Áslaugu Magnúsdóttur, fjárfesti og stofnanda tískuvörumerkisins Mode Operandi, sem opnar senn lúxushótel á Suðausturlandi
  • Lögmaðurinn Jón Steinar Gunnlaugsson hefur stofnað lögfræðistofu ásamt þremur börnum sínum
  • Fjallað er um áhrif stórtjóna á tryggingafélögin
  • Framkvæmdastjóri sviðs lífeyris og vátrygginga hjá FME svarar gagnrýni framkvæmdastjóra FÍB á FME
  • Viðtal við Ragnar Benediktsson, sem nýverið var ráðinn til ÍV sjóða sem sérfræðingur í hlutabréfum
  • Huginn og Muninn verða á sínum stað ásamt Tý sem fjallar um komu Piu Kjærsgaard á hátíð vegna 100 ára fullveldisafmælis Íslands